störf þingsins.
Virðulegi forseti, hv. þingmenn og landsmenn sem horfa á dagskrána hér í beinni útsendingu. Ég heiti Tómas, kallaður Tommi, og ég er eldri borgari. En það er einmitt það sem ég vil tala um í þessum ræðustól í dag. Þannig er að þegar menn, og konur, verða 70 ára og vinna hjá hinu opinbera eru þeir skikkaðir til að hætta að vinna. Ég er aftur á móti á undanþágu, orðinn 73 ára næstum, og er búinn að gera fjögurra ára samning við hið opinbera um að vera hér í fullri vinnu á ofurlaunum að auki. Ég fór í gær að hitta frænda minn, hann er læknir, hann er 73 ára, og um daginn fór ég að hitta gamlan skólabróður sem er tannlæknir, hann er 72 ára, og þeir voru báðir við góða heilsu. En ég fékk í gær tölvupóst frá konu sem var búin að vinna í 16 ár hjá hinu opinbera við umönnun, hún varð sjötug fyrir nokkrum mánuðum og þá var henni nánast hent út úr sinni vinnu. Þetta er ósanngjarnt. Ég segi því miður.
Hví í ósköpunum er þetta ekki leiðrétt? Bill Wyman, sem var bassaleikari Rolling Stones, sagði í viðtali árið 1989: The fifties are the new thirties. Ég vil meina að við sem erum á þessum aldri og erum við góða heilsu eigum að fá að vinna. Það er ósanngjarnt að reka fólk heim þegar það getur unnið.