152. löggjafarþing — 24. fundur,  19. jan. 2022.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það kom fram í máli fyrrverandi yfirlæknis göngudeildar Covid í gær að kostnaður við framkvæmd hvers pcr-prófs hér á landi sé um 11.000 kr. Frá upphafi kórónuveirufaraldursins hafa verið framkvæmd um milljón pcr-próf innan lands og rúmlega 500.000 á landamærunum. Samtals eru þetta rúmlega ein og hálf milljón pcr-prófa og með einföldum útreikningum hleypur kostnaðurinn við framkvæmd þeirra á u.þ.b. 17 milljörðum kr. Er þá ótalinn kostnaður við hraðpróf og smitrakningu.

Flestir þeirra sem smitast af ómíkron-afbrigði veirunnar finna fyrir litlum eða engum einkennum. Meðallegutími smitaðra af afbrigðinu er helmingi styttri en vegna delta-smits og innlagningarhlutfall er miklu lægra, enda sést það á tölunum. Í dag eru 33 á sjúkrahúsi vegna veirunnar, jafn margir og í desember 2020 þrátt fyrir að nýgengi smita hafi þá verið brotabrot af því sem það er í dag.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, kynnti í morgun afléttingu takmarkana í Bretlandi, afnám Covid-passa, grímuskyldu og fjarvinnu á hjúkrunarheimilum og meira að segja gaf hann til kynna að bráðum kæmi sá tími að smitaðir þyrftu ekki að einangra sig lengur. Við erum nýbúin að samþykkja framhald á nauðsynlegum aðgerðum til að styðja við atvinnulífið meðan á þessum hömlum stendur og ég er ánægð með að ríkisstjórnin hefur sinnt þeirri skyldu sinni af myndarskap. Það breytir því þó ekki að heildarkostnaðurinn við þær aðgerðir er nú talinn í hundruðum milljarða. Ef það er ekki bráðnauðsynlegt þurfum við að vera meðvituð um kostnaðinn við að halda áfram á sömu braut og spyrja okkur líka hvort við gætum náð meiri og jafnvel betri árangri með því að nýta fjármagnið með annars konar hætti í baráttunni við þennan vágest. (Forseti hringir.) Sú spurning stendur tvímælalaust upp á þingheim.