152. löggjafarþing — 24. fundur,  19. jan. 2022.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég hóf umræðuna í gær á því að við þyrftum að taka umræðuna um hvernig við séum að takast á við faraldurinn sem samfélag. Þá er ég ekki bara að tala um sóttvarnaaðgerðir heldur allar afleiðingarnar og allar hliðarnar. Ég kallaði eftir því að við fengjum hér á Alþingi og úti í samfélaginu að taka jafn djúpa umræðu um það og við tökum t.d. um efnahagsaðgerðirnar út af faraldrinum og þau viðbrögð. Það er mjög vel skilgreint. Þar höfum við fullt af greinargerðum og tölum og tölulegum upplýsingum. Núna eru einar hörðustu aðgerðir frá upphafi í gangi, sóttvarnatakmarkanir. Hér er ég með opinberu gögnin; tvær síður af fimm blaðsíðna minnisblaði sóttvarnalæknis. Ég heyri það strax, eins og ég kom inn á í gær og óttaðist, að það færu að koma tilfinningar í þessa umræðu. Ég vil að við tökum þessa umræðu. Á upplýsingafundi í morgun var látið eins og við hefðum verið að saka embætti sóttvarnalæknis um að taka bara eitt ákvörðun og að það væri ekki í samráði. Ég veit vel að þeir eru í góðu samráði og eru með fullt af upplýsingum en þær upplýsingar liggja ekki fyrir, við fáum þær ekki til umræðu. Við fáum ekki einhver fleiri sjónarmið til að geta vitað hvort þetta sé allt saman rétt og eðlilegt. Það getur vel verið að þetta séu bestu aðgerðirnar og þær séu réttlætanlegar. Við þurfum bara að hafa upplýsingar og gögn og taka umræðuna eins og við gerum t.d. um allar efnahagsaðgerðirnar sem við höfum farið í í kringum þetta.

Svo er alltaf talað um að við séum ekki með lausnir, séum ekki að leggja fram lausnir. Jú, lausnin okkar er sú og það sem við erum að kalla á, til að fá meiri sátt um aðgerðirnar í samfélaginu og við séum örugglega viss um það að við séum að gera það sem er réttast og að við séum að draga sem mest úr áhrifunum, er að kalla fleiri að borðinu og hafa umræðuna upplýstari. Það er það sem ég er að kalla eftir að fjölmiðlar og Alþingi og stjórnvöld geri; taki upplýsta ákvörðun þannig að allir viti að við séum að fara bestu leiðina.