störf þingsins.
Hæstv. forseti. Í tilefni orða hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins undir þessum dagskrárlið vil ég bara minna á að þeir hafa haft tæplega tvö ár til að tryggja það sem stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar að Alþingi Íslendinga taki þátt í að leggja línurnar í sóttvörnum eins og gert er í nágrannalöndunum.
En ég er ekki hingað komin til að ræða það, heldur til að vekja athygli þingheims á niðurstöðum nýrrar rannsóknar frá Vörðu, rannsóknastofnun vinnumarkaðarins, sem kynntar voru fyrr í dag. Þar eru ýmsar slæmar fréttir á ferðinni. Fyrst er að nefna að staða fólks, andleg og fjárhagsleg, á vinnumarkaði hefur versnað á milli ára. Við erum byrjuð að sjá miklar og alvarlegar afleiðingar heimsfaraldurs, ekki bara á efnahagsstöðu fólks heldur líka á andlega stöðu þess. Það kemur skýrt fram í niðurstöðum þessarar könnunar að allt of stór hópur vinnandi fólks á Íslandi má ekki við neinum óvæntum útgjöldum, ræður ekki við óvænt útgjöld, t.d. upp á 80.000 kr., sem þarna eru nefnd dæmi um, án þess að steypa sér í skuldir. Eins og alltaf, og þetta vita hv. þingmenn, er staðan verst hjá einstæðum foreldrum, og við vitum öll að flestir einstæðra foreldra eru mæður með börn á sínu framfæri.
Það eru í sjálfu sér engin tíðindi þannig séð í þessari könnun um það hverjir eru útsettastir fyrir fátækt, heilsubresti eða öðru í okkar góða samfélagi, heldur það að þessi staða hefur versnað svo á síðastliðnum tveimur árum að grípa verður til mjög víðtækra ráðstafana. Og hverjar eru þær? Þær eru að tryggja húsnæðisöryggi fólks með fleiri íbúðum á almenna húsnæðismarkaðnum og tryggja framfærslu barna og ungmenna í þessu landi.