152. löggjafarþing — 24. fundur,  19. jan. 2022.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Í viðtali um mitt síðasta sumar talaði Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokks, um stefnumótunarvinnu ríkisstjórnarinnar um stefnu og framtíðarsýn í viðbrögðum við heimsfaraldrinum sem væri farinn af stað. Ríkisstjórnin ætlaði að gefa sér tvær til þrjár vikur í verkefnið. Ráðherrann sagði, með leyfi forseta: „Svo stendur upp á okkur að svara því hvernig við ætlum að hafa hlutina til framtíðar.“ Viðtalið birtist 24. júlí, degi eftir að ríkisstjórnin boðaði aftur sóttvarnaaðgerðir innan lands. Það var auðvitað bakslag enda hafði sama ríkisstjórn mánuði fyrr aflétt öllum aðgerðum innan lands á stórum blaðamannafundi. Bakslagið var þó aðeins tímabundið, sagði ráðherrann. Þau væru nú að gefa sér þennan skamma tíma til að vinna þessa framtíðarstefnu. Ríkisstjórninni var sem sagt um mitt síðasta ár orðið ljóst að hún þyrfti að setja sér eitthvert plan til lengri tíma, plan sem tæki á þýðingu þess að þátttaka almennings á Íslandi í bólusetningu er á heimsmælikvarða, plan til að mæta áskorunum heilbrigðisstarfsfólks og heilbrigðiskerfisins, plan um skólastarf, plan fyrir fyrirtækin, plan fyrir menningarlífið, plan fyrir íþróttastarf í landinu, plan fyrir heimilislíf í landinu, plan svo hægt væri að horfa til lengri tíma en bara næstu daga og vikna, framtíðarplan í stað stöðugrar óvissu. Stefnan og planið átti að svara því hvernig við ætluðum sem þjóðfélag að lifa með Covid í náinni framtíð og mögulega um alla framtíð, sagði hæstv. ráðherra. En síðan hefur ekkert heyrst um neitt plan ríkisstjórnarinnar þangað til formaður Sjálfstæðisflokksins birtist í fjölmiðlum fyrir jól og kallaði eftir plani. Hann virtist ekki vita að hans eigin ríkisstjórn var að smíða plan síðasta sumar.

Forystuleysið hrópar á okkur. Gerir þessi ríkisstjórn sér ekki grein fyrir sínu eigin hlutverki? Átta ráðherrarnir sig ekki á því að þeir geta gert meira en bara að gagnrýna eigin stefnu? Á meðan býr þjóðfélagið allt við stöðuga óvissu.