152. löggjafarþing — 24. fundur,  19. jan. 2022.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í upphafi árs 2020 barst hingað heimsfaraldur. Síðan eru liðin tvö ár. Stjórnvöld fengu þá það óvænta verkefni að bregðast við afleiðingunum með margvíslegum hætti. Í upphafi var tekin sú skynsamlega ákvörðun að fylgja sérfræðingum í sóttvarnaaðgerðum. Það var okkar gæfa. Við sjáum það nú að með því að fylgja ráðum sérfræðinga náðum við að vernda heilbrigðiskerfið svo það hélt í við veiruskömmina. Ég ætla ekki að leyfa mér að hugsa til þess hvernig ástandið væri ef okkur hefði ekki tekist það.

Í því sambandi getum við litið til annarra þjóða sem börðust í bökkum þrátt fyrir öflugt heilbrigðiskerfi. Við getum litið til Bandaríkjanna, því að á tímabili voru fullir líkgeymslugámar fyrir utan sjúkrahús í New York. Fólk hér á landi gerir sér kannski ekki almennt grein fyrir því að heilbrigðisstofnanir hér á landi voru með áætlanir um hvernig ætti að geyma líkin ef til þess kæmi. Við getum þakkað fyrir að sú sviðsmynd raungerðist ekki. Eitt það mikilvægasta er að okkur hefur tekist að halda skólum landsins opnum. Sérfræðingar eru þegar farnir að tala um að langvarandi sóttkví geti haft neikvæð áhrif á námsárangur barna og andlega líðan. Hvernig ætli staðan sé hjá þeim börnum sem voru skikkuð heim í marga mánuði víða erlendis?

Virðulegi forseti. Stjórnvöld hafa líka borið gæfu til þess að leggja fram efnahagslegar mótvægisaðgerðir til að minnka þau áhrif sem heimsfaraldur hefur. Þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa lagt í telja á þriðja tug. Þær fela í sér stuðning við rekstraraðila, aðgerðir til að örva eftirspurn og til að viðhalda ráðningarsambandi, aðgerðir til að vernda heimilin og ekki síst verndun viðkvæmra hópa. Sérfræðingar hafa tekið undir að þetta hafi tekist vel.

Ég er orðin hundleið á þessu ástandi, eins og flestir, en við verðum að halda áfram að brosa, halda okkur við skynsamlegar sóttvarnaaðgerðir og árangursríkar efnahagslegar aðgerðir. Það er ekki í boði að gefast upp núna.