152. löggjafarþing — 24. fundur,  19. jan. 2022.

tímasett aðgerðaáætlun um einföldun regluverks.

143. mál
[16:20]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Frú forseti. Ég kynni hér þingsályktunartillögu um ákaflega brýnt mál sem er reyndar búið að vera brýnt árum saman. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem sambærileg tillaga er lögð fram. Þingmenn Miðflokksins gerðu það reyndar ítrekað á síðasta kjörtímabili því að þetta er til þess fallið að taka á nánast öllum úrlausnarefnum íslensks samfélags. Hvernig má það vera? Jú, það er vegna þess að þetta snýr að betri rekstri ríkisins og ekki veitir af. Í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa ríkisútgjöld aukist gríðarlega. Þessari ríkisstjórn tókst að auka ríkisútgjöldin á einu kjörtímabili um hátt í 40%. Ég held að það hljóti að vera einhvers konar met og þó að auðvitað hafi orðið atburðir á síðasta kjörtímabili sem kölluðu á ófyrirséð útgjöld, og þá einkum og sér í lagi faraldurinn og aðgerðir til að takast á við hann, þá virðist útgjaldaaukningin eiga að vera varanleg hjá ríkisstjórninni. Við höfum séð það núna í nýjustu fjármálaáætlun stjórnarinnar og nýjasta fjárlagafrumvarpinu að jafnvel þótt gert væri ráð fyrir því að faraldurinn væri í rénun og við værum að komast út úr þessu Covid-tímabili gerði ríkisstjórnin einfaldlega ráð fyrir því að halda áfram að setja met í útgjaldaaukningu, eyða peningum í meira mæli en nokkurn tímann hefur verið gert áður, peningum skattgreiðenda. Það hefur auðvitað áhrif á getu stjórnvalda, á getu samfélagsins til þess að forgangsraða og leysa mörg þeirra brýnu mála sem kalla á aukið fjármagn. Vöxturinn er nefnilega að miklu leyti afleiðing þess að þessi ríkisstjórn hefur ekki rekið samfélagið, ekki séð um ríkisreksturinn af þeirri skynsemi sem við hljótum að ætlast til af stjórnvöldum. Báknið með öðrum orðum stækkar bara og stækkar, hvort sem það er góðæri eða erfiðleikar að fást við, báknið stækkar við allar aðstæður hjá þessari ríkisstjórn og hefur aldrei verið stærra en það er nú.

Þessari þingsályktunartillögu er ætlað að taka á þessu með tillögum um hvernig megi standa að einföldun regluverks en um leið auðvitað að minnka báknið og gera fyrirtækjum og einstaklingum, sem eru starfandi í samfélaginu og búa til verðmætin sem ríkissjóður þarf að afla sér til að standa undir öllum þessum útgjöldum, kleift að búa til meiri verðmæti. Þetta helst nefnilega í hendur, annars vegar sparnaður og betri meðferð peninga hjá ríkissjóði og hins vegar auknir hvatar til verðmætasköpunar. Þessi þingsályktunartillaga tekur á því öllu. Þar er vísað til vinnu sem þegar hefur farið fram. Á árinu 2013 og 2014 var mikill kraftur settur í vinnu við að einfalda kerfið á Íslandi, draga úr óþörfum opinberum umsvifum, einfalda regluverk, meira að segja gefin út heil skýrsla, bæklingur, um hvernig mætti ná þessum markmiðum og auk þess sérstök handbók fyrir opinberar stofnanir um hvernig þær ættu að starfa með það að markmiði að draga úr útgjöldum og spara fyrir almenning í landinu. Þessu fylgdu ýmis áform og aðgerðir, þar með talið áform um að innleiða þá reglu að ekki megi bæta við af hálfu stjórnvalda nýrri íþyngjandi reglugerð eða lögum öðruvísi en a.m.k. tvær álíka íþyngjandi reglur falli úr gildi. Hér var litið til fordæmis frá Bretlandi ekki hvað síst. Með þessu stóð til að innbyggja í kerfið hvata til að einfalda sig og innbyggja þau um leið í stjórnmálin því að það þarf ekki að hafa mörg orð um hversu mikill áhugi er á því hér í þessum sal og í stjórnkerfinu öllu að flækja regluverkið og auka byrðarnar á almenning. Við höfum séð það endurtaka sig hvað eftir annað undanfarin ár. En með því að setja reglu sem þýðir að þegar stjórnvöld þrá að setja nýja reglugerð, setja ný lög, þá þurfa þau að nema úr gildi tvöfalt fleiri sambærilegar reglur, þá er kominn sterkur hvati til að draga úr reglugerðinni.

Samhliða þessum áformum og aðgerðum á sínum tíma ákváðum við í þáverandi ríkisstjórn einnig að ríkið myndi hætta að vera leiðandi í verðbólgumyndun en raunin hefur verið sú að ríkið, ríkisvaldið, ríkisstjórn, heldur upp á nýtt ár með því að tilkynna um hækkanir á hvers konar gjöldum sem lögð eru á almenning. Það var sem sagt tekin ákvörðun um að hverfa frá þessu og byrjað á því. En svo urðu ríkisstjórnarskipti og þá virðist þetta hafa meira og minna dottið upp fyrir og ríkið hélt áfram á sömu braut, hélt áfram að auka útgjöldin, hélt áfram að flækja regluverkið. Reyndar státaði ríkisstjórnin sig af því á síðasta kjörtímabili að í tveimur ráðuneytum, að mig minnir, hafi farið fram einhvers konar einföldun regluverks sem þegar betur var að gáð snerist fyrst og fremst um að fella úr gildi reglugerðir sem ekki voru lengur í notkun og höfðu jafnvel ekki verið áratugum saman. Það er orðið ákaflega brýnt að ráðast í þessar aðgerðir því að rekstur ríkissjóðs er orðinn ósjálfbær, eins og glöggt má sjá í nýjustu fjármálaáætlun þessarar ríkisstjórnar. Það er ekki hægt að halda áfram á sama hátt. Það er ekki hægt að halda áfram að leyfa bákninu að vaxa nánast stjórnlaust.

Þegar þessi ríkisstjórn eftir kosningar kynnti þingmálaskrá sína og stefnuskrá, stjórnarsáttmála, var ekki að finna mikla áherslu á að spara, fara vel með fjármuni almennings. Áherslan var á aukin útgjöld og nýjar stofnanir. Þetta kallar á inngrip af hálfu Alþingis. En þessi þingsályktunartillaga er sett fram með þeim hætti að ríkisstjórninni verði falið ákveðið verkefni, m.a. að líta til þeirrar vinnu sem þegar hafði farið fram og birtist 2014, eins og ég nefndi. En við vonumst til þess að með því að leyfa ríkisstjórninni að klára þetta og útfæra þá verði hún frekar fáanleg til að fallast á það og ekki veitir af. Opinberum starfsmönnum hefur á síðasta kjörtímabili fjölgað um 9.000. Á sama tíma hefur starfsmönnum í einkageiranum fækkað um álíka háa tölu. Opinberir starfsmenn eru margir hverjir og líklega flestir hverjir mjög mikilvægir, gegna mjög mikilvægum hlutverkum í samfélaginu. En það má ekki slíta hlutina úr samhengi, því að það þarf skattgreiðslur. Það þarf verðmætasköpun einkageirans til að við getum staðið undir opinbera kerfinu, m.a. staðið undir því að greiða opinberum starfsmönnum laun en þeir nálgast það nú að vera þriðjungur starfandi fólks á Íslandi. Svoleiðis að hvort sem litið er til fjölgunar stofnana, nýrra verkefna, flóknara regluverks eða annarra þeirra þátta sem hafa áhrif á rekstur ríkisins hefur hallað undan fæti alla tíð þessarar ríkisstjórnar og það þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi farið með fjármálaráðuneytið allan þann tíma og raunar töluvert lengur.

Þetta kallar á aðgerðir og með þessari tillögu er sýnt fram á hvernig hægt er að ráðast í þessar aðgerðir hratt og vel, m.a. með því að taka tillit til þeirrar vinnu sem þegar var búið að vinna og var að byrja að skila árangri þegar var horfið frá stefnunni og farið aftur á braut útgjaldaaukningar. Þetta er gríðarlega mikilvægt til þess að við höfum efni á því að efla heilbrigðiskerfið en það þarf líka að huga að skipulaginu. Það hefur skort á það. Samhliða útgjaldaaukningu hefur skipulag flestra kerfa einfaldlega flækst í stað þess að vera lagað. En með betri rekstri ríkissjóðs erum við betur í stakk búin til að fjárfesta í því sem er mikilvægast að ríkissjóður fjárfesti í og með einfaldara regluverki horfum við fram á miklu meiri verðmætasköpun, sem hefur verið skortur á í samfélaginu þó að fyrirtæki standi sig mörg hver býsna vel og reyni af fremsta megni að takast á við þessar hindranir, þennan reglugerðafrumskóg. En þá yrðu fyrirtækin fleiri, verðmætasköpunin meiri, sérstaklega ef minni fyrirtækin þyrftu ekki að verja stórum hluta tíma starfsmannanna í það að fást við kerfið.

Þetta er líka mikilvægt vegna þess að með því eykst jafnræði fyrirtækjanna. Með því að draga úr reglubyrði, með því að einfalda regluverkið og með því að hafa ríkið í þjónustu við almenning frekar en öfugt þá eykst jafnræði milli lítilla og stórra fyrirtækja, því að stóru fyrirtækin ráða auðvitað best við reglugerðafarganið. Þau eru jafnvel með heilu deildirnar, lögfræðideildir, endurskoðunardeildir í því bara að fást við kerfið fyrst og fremst, litlu fyrirtækin geta ekki leyft sér það. Það er einfaldlega orðið þannig á Íslandi að það er varla hægt að hefja rekstur, stofna lítið fyrirtæki, láta góða hugmynd verða að veruleika, nema ráða fólk í vinnu bara til að fást við kerfið, ráða annaðhvort starfsmenn eða utanaðkomandi sérfræðinga í vinnu við það að standa skil á öllum þeim kröfum sem ríkisvaldið og hið opinbera leggja á fyrirtæki í rekstri, leggja á þá sem eru að skapa verðmætin í samfélaginu. Þetta er orðið mjög letjandi kerfi og það kemur í bakið á okkur, kemur í bakið á ríkissjóði á endanum. Það þarf því að haldast í hendur einföldun regluverks og meiri sparnaður, betri meðferð skattfjár hjá ríkinu.

Þegar ríkisstjórn hefur afrekað það á einu kjörtímabili að auka ríkisútgjöld um hátt í 40% og fjölga opinberum stöðugildum sem aldrei fyrr á sama tíma og stöðugildi í einkageiranum fækkar þá kallar það á viðbrögð. Og hér er lausn. Hér er a.m.k. upphafið að lausninni en eins og ég nefndi áðan þá viljum við fela ríkisstjórninni að klára þetta, leyfa ríkisstjórninni að útfæra þetta á sinn hátt. Ég lít svo á að það sé mikilvægt og æskilegt að nýta þá vinnu sem þegar hefur farið fram, bæta við hana ef ríkisstjórnin sér ástæðu til þess, en nýta þá miklu vinnu sem hafði farið fram og umfram allt fylgja henni eftir. Það er það sem vantar kannski helst hjá þessari ríkisstjórn, viljinn og þolgæðið, því að þetta getur á margan hátt verið erfitt. Það hefur vantað bæði vilja og þolgæði hjá þessari ríkisstjórn til að fara betur með skattfé almennings og einfalda regluverk, draga úr þeim álögum og þeim kvöðum sem eru lagðar á almenning í landinu. En verði þessi þingsályktunartillaga samþykkt, henni hrint í framkvæmd, þá munu tekjur ríkissjóðs aukast, útgjöldin munu minnka, framtíðarkynslóðir munu búa við meiri hagsæld, vera síður skattpíndar en horfur eru á núna og almenn velferð á Íslandi, lífið á Íslandi verður betra. Ég tel því, forseti, að þetta ætti að vera forgangsatriði hjá ríkisstjórninni.