152. löggjafarþing — 24. fundur,  19. jan. 2022.

framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2.

11. mál
[17:08]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Í 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar segir:„Sveitarfélög skulu sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða.“ Samkvæmt lögum er skipulagsvaldið fyrst og fremst í höndum sveitarfélaganna. Í stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga árið 2018–2022 segir:

„Skipulagsvaldið er einn af hornsteinum sjálfstjórnarréttar sveitarfélaga sem ávallt ber að virða.“

Frumvarpið sem hér er til umfjöllunar felur í sér að Alþingi lögfesti heimild til að veita Landsneti framkvæmdaleyfi við lagningu Suðurnesjalínu 2 í landi sveitarfélaganna Hafnarfjarðar, Grindavíkur, Reykjanesbæjar og Voga. Ég ætla ekki að tjá mig sérstaklega um efnisleg atriði deilunnar heldur einungis vekja athygli á þeirri valdníðslu sem hér er lögð til og sem jafnvel hæstv. iðnaðarráðherra sagði í fjölmiðlum fyrir áramótin að hann teldi koma til greina þó að hann sé ekki flutningsmaður frumvarps þess sem hér er til umfjöllunar.

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir þróun og uppbyggingu sjálfbærs samfélags og atvinnutækifæra á Suðurnesjum að orkuöryggi svæðisins verði tryggt. Til þess þarf sannarlega að styrkja flutningskerfi raforku á Suðurnesjum. Það er enginn ágreiningur um að bæta þurfi orkuöryggi á Suðurnesjum en bent hefur verið á leiðir sem eru færar til þess aðrar en þá sem framkvæmdaraðilinn vill fara og hér er lagt til að knúin verði fram með valdi.

Í greinargerð með frumvarpinu er málinu stillt þannig upp að eitt sveitarfélag sé með óskiljanlegum dyntum sínum að koma í veg fyrir þessa mikilvægu framkvæmd. Úr umsögn framkvæmdaraðila um málið á fyrra þingi má lesa að hugmyndir fyrirtækisins um samráð gangi fyrst og fremst út á það að gefa hlutaðeigandi aðilum tíma og rými til að fallast á þeirra afstöðu. Raunverulegt samráð, eða tilraunir til að ná sáttum, virðist ekki hafa farið fram af neinni alvöru.

Í greinargerð með frumvarpinu er þannig látið í veðri vaka að sveitarfélagið sé eitt um þessa afstöðu sína en ljóst er, m.a. af þeim umsögnum sem bárust vegna málsins, þegar það var lagt fram á fyrra þingi, að svo er ekki. Má þar nefna umsagnir frá Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands, Ungum umhverfissinnum og Landvernd sem öll lýstu andstöðu við frumvarpið. Tekur Landvernd reyndar svo djúpt í árinni að kalla frumvarpið: Stórhættulegt fordæmi fyrir faglega ákvarðanatöku í málefnum sem varða umhverfið, fyrir sjálfstæði sveitarfélaga og fyrir lýðræðislegan rétt almennings til að koma að ákvörðunum sem hann varða.

Þá hafa verið gerðar alvarlegar athugasemdir við frumvarpið þar sem með því sé lögbundnu ferli við mat á umhverfisáhrifum kippt úr sambandi, ferli sem sett hefur verið á til samræmis við EES-reglur. Sú boðvaldsleið sem lögð er til með frumvarpinu stríðir þannig gegn EES-samningnum sjálfum. Það yrði þá ekki í fyrsta skipti sem Ísland gerðist brotlegt við ákvæði EES-samningsins þegar kemur að framkvæmdum sem hafa víðtæk umhverfisáhrif. Þá sé með þessari leið tekið fyrir möguleika almennings á að leita til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna brota á lögum sem varða umhverfi hans.

Virðulegi forseti. Hér er því ekki um það að ræða að einn aðili standi af einskærri sérvisku í vegi fyrir mikilvægum framkvæmdum svo að grípa þurfi inn í með slíku ofvaldi sem þetta frumvarp felur í sér. Hér er um að ræða tillögu um að Alþingi beiti löggjafarvaldi sínu í þágu framkvæmdaraðila gegn sveitarfélögum sem tekið hafa ákvarðanir sem eru í þeirra höndum samkvæmt lögum og stjórnarskrá. Hvað sem líður efnislegum deiluatriðum þessa máls er þannig verið að leggja til hér að Alþingi misbeiti löggjafarvaldinu gegn sjálfstjórn sveitarfélaganna um málefni sem standa þeim mjög nærri. Kemur það mér mjög á óvart að þingmenn sem hér sitja í umboði fólks af landsbyggðinni, og ættu að vera meðvitaðir um mikilvægi sjálfstjórnar sveitarfélaganna, berjist gegn lögmætum ákvörðunum sveitarfélags af slíkum móði.