152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[10:34]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Möguleikar þingmanna til að beina óundirbúnum fyrirspurnum til ráðherra er gríðarlega mikilvægur þáttur í aðhaldi þingsins að framkvæmdarvaldinu og upplýsingagjöf stjórnvalda til þingsins, eins og hér hefur verið bent á. Kveðið er á um þetta í lögum um þingsköp Alþingis þar sem segir að að jafnaði skuli ekki vera færri en þrír ráðherrar sem sitja fyrir svörum. Í dag eru einungis tveir mættir. Það vekur sérstaklega athygli vegna þess hversu margir ráðherrar eru orðnir. Þessi ríkisstjórn hefur séð ástæðu til að fjölga ráðherrum en greinilega ekki í þeim tilgangi að auka fyrirsvar þeirra gagnvart þinginu. Ég lýsi því yfir miklum vonbrigðum með að hér í dag skuli einungis mæta tveir ráðherrar og það væri raunar ágætt að fá frekari skýringar á því en bara þá að það hafi ekki náðst. Það er hægt að sýna ýmsum hlutum skilning en þegar af svo mörgum einstaklingum er að taka er erfitt að ímynda sér hvað veldur því að einungis tveir af tólf sjá sér fært að koma og tala við þingið. Þá vil ég óska sérstaklega eftir því að innanríkisráðherra sjái sér fært að koma og tala við okkur hérna, a.m.k. næst, helst í dag.