152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[10:43]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þingmenn hafa gert hér þakka forseta fyrir ábendingar um aðrar leiðir sem við höfum til að ná áheyrn ráðherra. Ástæðan fyrir því að ég lít á þennan tíma sem mikilvægan tíma, sérstaklega mikilvægan, fyrir okkur til að eiga samtal við ráðherra er kannski fyrst og fremst sú að það er akkúrat það, það er samtal. En svo hefur dálítið verið um að það taki óeðlilega langan tíma að fá svör þegar fyrirspurnir eru sendar inn með skriflegum hætti. Það tekur langan tíma, það getur tekið margar vikur, jafnvel upp í mánuði, sérstaklega ef krafist er skriflegs svars við fyrirspurn. Þetta er mikilvægt og mér finnst pínulítið eins og verið sé að gera lítið úr því hlutverki ráðherra gagnvart þinginu þegar bent er á þessa ástæðu í þessu samhengi.