152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[11:42]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Reynslan hefur einfaldlega sýnt okkur að aðgerðirnar hafa þurft að vera sveigjanlegar og við höfum verið sveigjanleg. Við höfum byggt á gögnum og greiningum og við höfum gert það þegar kemur að efnahagsþættinum nokkuð vel. Við vitum líka, og það eru engar nýjar fréttir, að það hefur verið ófyrirsjáanleiki í því hvernig mál þróast, efnahagsstærðir, atvinnuleysi o.s.frv., og sömuleiðis aðgerðir og takmarkanir sem gripið hefur verið til vegna sóttvarnaráðstafana. Og þegar öllu er á botninn hvolft hefur líka komið í ljós að aðgerðir og ákvarðanir ríkisstjórnarinnar hafa verið réttar þegar kemur að efnahagslegum viðbrögðum. Við sjáum það í tölum að atvinnuleysi er ekki að aukast og þess vegna þurfum við einmitt á grundvelli sviðsmyndavinnu, gagna og upplýsingaöflunar að meta stöðuna eins og hún er núna og horfa til þess hvort hlutabótaleið eða almennum viðspyrnustyrkjum verði fram haldið og með hvaða hætti og hvernig mismunandi úrræði gagnast hverjum og (Forseti hringir.) hvar þörfin er mest, því að við þurfum líka að passa að vera með nægilega sértæk úrræði þannig að við séum ekki að ýta undir einhvern óstöðugleika.