152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[11:45]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Jú, við erum með þrepaskiptingu og tröppugang almennt í þessum úrræðum og höfum reynt að finna rétt jafnvægi í því og stundum hafa þær tröppur, þau þrep, jafnvel tekið einhverjum breytingum áður fyrr. Við erum með tvö þrep til að reyna að grípa mismunandi aðstæður mismunandi fyrirtækja, en það er nú þannig að það væri ógerningur að afgreiða mörg hundruð og jafnvel á einhverjum tímapunkti þúsundir umsókna ef hægt væri að vera með það í hálfum prósentum og þar af leiðandi þá fjöldann allan af útfærslum. Við reynum og okkur hefur gengið ágætlega að finna þetta jafnvægi og erum ekki með eina línu. Auðvitað eru alltaf einhver jaðartilvik en það skiptir máli að þetta sé bæði skilvirkt, framkvæmanlegt, grípi þar sem grípa þarf og að við byggjum á fyrri ákvörðunum og fyrri reynslu.