152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[11:47]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Við fáum í útfærslu á svona tillögum ráðleggingar frá þeim sem sjá um framkvæmd þessara úrræða, hinum svokölluðu sérfræðingum. Við byggjum tillögurnar á ráðleggingum frá þeim um það hvað er gerlegt, hvað er best til þess fallið að ná settu markmiði. Í þessu tilfelli er það í rauninni þannig að þú ert úti ef þú ert undir 20% tekjufalli, því að eitthvert þarf tekjufallið vissulega að vera, en þú dettur ekki út á efri endanum. Þess vegna höfum við reynt að hafa úrræðin eins einföld og kostur er, bæði þannig að það sé auðvelt að sækja þau og auðvelt að skilja þau. Upptalningin á því þegar við erum að grípa til ráðstafana og losa er hundleiðinleg og vonandi styttist í það að við þurfum ekki að vera að ræða hér frekari viðbrögð og stuðning heldur geti fyrirtækin einfaldlega aflað sér tekna og skapað verðmæti á sínum forsendum. Vonandi styttist í það og þá getum við farið að tala um aðra pólitík en þessa hér. En við þurfum einfaldlega að klára verkefnið og við ætlum að gera það almennilega.