152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

sóttvarnaaðgerðir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:34]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svarið. Það virðist vera mál manna núna að þessu fari senn að ljúka. Þótt því hafi ranglega verið haldið fram áður í gegnum þetta ferli ætla ég ekki að taka að mér hlutverk þess sem dregur úr þeirri von fólks, a.m.k. ekki akkúrat hér og nú. Þótt margt hafi tekist vel til í aðgerðum stjórnvalda hefur mér, líkt og ég nefndi áðan, þótt verulega skorta á það að ríkisstjórnin móti sér langtímasýn og geri áætlanir fram í tímann til þess að kljást við þær áskoranir sem við er að etja í þessum heimsfaraldri. Ég óttast að það sama muni gerast þegar hið versta er yfirstaðið og þá varðandi þau úrræði sem þarf að grípa til til þess að kljást við afleiðingar þess sem á undan er gengið. Á ég þá vitanlega við hvort tveggja, heimsfaraldurinn sjálfan og viðbrögð stjórnvalda við honum. Neyðarástand á borð við heimsfaraldur er áfall. Það er áfall fyrir þjóðina, það er áfall fyrir einstaklinga. Það er oft ekki fyrr en storminum léttir sem afleiðingar áfalla koma almennilega í ljós. Það er á ábyrgð stjórnvalda að sjá fyrir þær afleiðingar sem eru bæði mögulegar og líklegar og sem er jafnvel farið að bera á en að mínu mati hefur því lítill eða enginn gaumur verið gefinn enn þá.

Því ætla ég að beina annarri spurningu til hæstv. ráðherra: Til hvaða ráðstafana ætlar ráðherra að grípa til að bregðast við afleiðingum þeirra áfalla sem heimsfaraldur og aðgerðir vegna hans hafa fyrir almenning í landinu? Þá á ég við sálfræðilegan stuðning og önnur slík úrræði. Stendur til að gera einhverja áætlun fram í tímann hvað þetta varðar í stað þess að vera sífellt að slökkva elda?