152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[16:03]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Mig langaði bara í lokin að þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur verið í dag, sem hefur verið gagnleg. Ég vildi nefna sérstaklega þá viðbótarinnspýtingu sem menningar- og viðskiptaráðherra kynnti í síðustu viku þar sem eru, að mig minnir, til viðbótar 380 millj. kr. inn í ýmiss konar sjóði handa menningargeiranum. En það er vissulega rétt þegar kemur að óbeinum áhrifum, þ.e. fyrirtækjunum sem halda viðburðina, tækjafyrirtækin o.s.frv., að þau falla ekki beint undir þetta. Þau ættu þó með óbeinum hætti líka að njóta góðs af því, þ.e. þegar hægt er að halda fleiri viðburði, sem við getum síðan ekki alltaf gert vegna takmarkana. En við höfum sömuleiðis tilkynnt um framhald lokanunarstyrkja og um þau áform að halda áfram með viðspyrnustyrki, ekki þá sem við erum að ræða hér heldur almennt. Þessi fyrirtæki ættu að falla undir þá ef þau uppfylla skilyrðin, sem ég geri ráð fyrir að mörg þeirra geri.

Mig langar síðan að taka undir það sem hv. þm. Helga Vala Helgadóttir kom fram með og fleiri hafa komið inn á í dag, það sem snýr að geðheilsu þjóðar og umræðu um þann þátt málsins, sem er nefnilega líka að vernda heilsu og líf landsmanna allra. Það eru oft töluvert óáþreifanlegri þættir. Það er erfiðara að festa fingur á því með beinum hætti. Það er erfiðara að telja þá og mæla en Covid-smit, veikindi o.s.frv. Við vitum líka að það kemur seinna fram. Ég vildi bara hafa nefnt það hér þótt það snúi ekki beint að þessu frumvarpi. En allt snýst þetta nú einhvern veginn um Covid, sama hvað hér er rætt um. Ég myndi fagna því mjög að það væri meira svigrúm í umræðu um þann þátt málsins vegna þess að hann skiptir okkur öll ofboðslega miklu máli og hefur þegar áhrif og mun hafa áhrif og þarf að vera hægt að ræða út frá ýmsum sjónarmiðum.

Ég vil að öðru leyti þakka fyrir umræðuna hér í dag og óska nefndinni góðs gengis með þinglega meðferð.