152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[16:11]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að við séum í raun sammála um að vilja klára þetta verkefni þannig að við gerum það sem gera þarf, einmitt til þess að horfa ekki á eftir fyrirtækjum og störfum, á eftir starfsfólki. Þetta er vonandi á lokametrunum eftir allt sem á undan er gengið. Það er í raun það sem þessi vinna gengur út á, að vera viss um að við séum að styðja þá sem sannarlega þurfa á stuðningi að halda, það er vinnan sem er í gangi núna.

Ég reyni að skilja það að fólk sakni fjármálaráðherra mjög mikið í þessari umræðu, en þótt málin séu stór og flókin þá leyfi ég mér að halda því fram að sú sem hér stendur ráði líka fullkomlega vel við að kynna þau og leysa, mæla fyrir þeim og svara fyrir þau, sem er jú hugmyndin með staðgengli.

Að lokum þakka ég aftur fyrir þessa umræðu og við munum koma með mál og kynna þau um leið og þau fæðast. Það styttist mjög í að við getum svarað þessum spurningum og aukið fyrirsjáanleika gagnvart fyrirtækjum almennt þannig að þau geti mátað sig við það, sérstaklega þau fyrirtæki sem sannarlega þurfa á stuðningi að halda þessa lokametrana.