152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[20:25]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég á sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem fjallaði um þetta stóra mál. Málið var rætt hér á þinginu fyrir áramót og komu þar fram áhyggjur margra þingmanna af þessari ákvörðun formanna stjórnarflokkanna en ég ætla að eigna þeim ákvörðunina. Við vinnslu í nefndinni fengum við til okkar ýmsa aðila og nokkuð barst af umsögnum um málið. Ef ég tala bara fyrir mitt leyti þá vonaðist ég kannski til þess að umsagnir þeirra aðila sem hagsmuna eiga að gæta af breyttu fyrirkomulagi myndu róa áhyggjur okkar, en það reyndist þvert á móti. Margir umsagnaraðilar viðruðu mjög sambærilegar áhyggjur og lýst var hér í þingsal í fyrri umr. um þetta mál og hefur verið lýst hér í dag. Þær umsagnir staðfestu því miður ótta minn og margra annarra af því að breytingarnar séu ekki úthugsaðar og kannski ekki teknar á þeim forsendum sem látið er uppi.

Þegar breytingar voru gerðar á skipan ráðuneyta árið 2012 brást minni hlutinn á þingi við með því að tala bæði beinskeytt gegn breytingunum og greiða atkvæði gegn þeim. Framsögumaður minnihlutaálits vegna þess máls var, merkilegt nokk, hæstv. núverandi forseti Alþingis. Gagnrýndi minni hlutinn þá m.a. lítinn undirbúning málsins en honum er lýst með eftirfarandi hætti í álitinu, með leyfi forseta:

„Tillagan virðist fyrst komast á dagskrá ríkisstjórnarinnar í tengslum við uppstokkun í ráðherrahópnum um áramótin og í minnisblaði frá 10. janúar sl. um stofnun ráðherranefndar um stjórnkerfisumbætur er vikið að þessum þætti í einni setningu. Um svipað leyti fól forsætisráðherra þriggja manna starfshópi að meta kosti og galla í þessu sambandi og skilaði hann af sér í febrúar. Niðurstöður hans voru í meginatriðum á þá leið að annaðhvort þyrfti að styrkja efnahags- og viðskiptaráðuneytið frá því sem nú er eða færa verkefni á sviði efnahagsmála til fjármálaráðuneytis og önnur verkefni til atvinnuvegaráðuneytis. Voru nefndir kostir og gallar hvorrar leiðar.“

Og aðeins síðar segir:

„Ekki verður séð að nein önnur greiningarvinna eða samráð við stofnanir eða hagsmunaaðila hafi átt sér stað um þetta atriði við undirbúning þingsályktunartillögunnar.“

Þessi afstaða þáverandi minnihlutaflokks á þingi, sem nú myndar þann meiri hluta sem stendur að baki þeirri þingsályktunartillögu, um breytingu á skipan ráðuneyta, sem hér er til umfjöllunar, vekur athygli fyrir tvennt: Annars vegar fyrir skýra afstöðu um vald ríkisstjórnar til breytinga á skipan Stjórnarráðsins almennt, sem endurspeglast í skýrri andstöðu flokksins og atkvæðagreiðslu í málinu sem rímar kannski ekki við það sem sagt er í dag. Hins vegar vekur afstaða flokksins athygli vegna þess að jafnvel það að skipa sérstaka nefnd til að skoða æskilega skipan ráðuneyta, og gera tillögur að úrbótum, þótti ekki nægur undirbúningur fyrir svo stóra ákvörðun; ákvörðun sem hér hefur verið tekin af þremur einstaklingum án nokkurs samráðs við nokkurn mann, fyrirvaralaust og án undirbúnings og án skýrra áætlana um fyrirhugaðan undirbúning. Það átti bara að „winga“ þetta, eins og unga fólkið segir, sem á ástkæra ylhýra útfærist sennilega einhvern veginn á þá leið að láta slag standa, hugsa ekki um of um afleiðingarnar og bara treysta því að allt fari vel.

Það er ekki nema von að þingmenn sem þá voru hluti af minni hluta, en eru nú hluti af meiri hluta, hafi mögulega aðra afstöðu til málsins þar sem jafnvel meðlimir stjórnarflokkanna, aðrir en formenn þeirra, virðast ekki hafa verið hafðir með í ráðum. Ákvörðun sem kostar ríkissjóð hundruð milljóna og umbyltir störfum hundruð einstaklinga, og er jafnvel líkleg til að raska þjónustu við borgara þessa lands, var tekin í bakherbergi, sem var kannski ekki reykfyllt en svo mikið er víst að það var ekki mjög stórt.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni sem hér er til umfjöllunar segir, með leyfi forseta, að til standi:

„… að fella niður ósýnilega múra stofnanamenningar og stuðla að samvinnu, samráði og samhæfingu innan Stjórnarráðsins.“

Þetta hljómar vel. Raunar hljómar þetta eins og til standi að umbylta íslenskri stjórnskipan og stjórnarháttum eins og þeir hafa verið tíðkaðir hér á landi hingað til. Á Íslandi ríkir nefnilega gríðarsterkt ráðherraræði, sem svo er kallað, eins og fjallað hefur verið um hér í dag, þar sem stjórnmálamenningin gerir kröfu um að hver ráðherra hafi gríðarlegt svigrúm, svo ekki sé fastar að orði kveðið, til að stjórna sínu ráðuneyti og þeim málefnum sem undir það falla. Það er vitanlega vel, að mínu mati, ef það er ætlun ríkisstjórnarinnar að ganga svo langt að umbylta þeirri stjórnmálamenningu, enda er ég kannski ekkert endilega sammála því að þeir stjórnarhættir sem hafa verið viðhafðir hér hingað til séu þeir ákjósanlegustu. Það er hins vegar ekkert sem bendir til þess að þannig muni fara. Þessi ríkisstjórn, sem þegar hefur verið við völd í eitt kjörtímabil, hefur ekki gefið okkur minnsta tilefni til að trúa því að hún sé fær um að starfa með öðrum hætti, ekki neitt. Og ekki fylgir þessum tillögum nein áætlun þess efnis eða annað sem glæðir von í þeim efnum, bara stórar yfirlýsingar.

Í greinargerð eru færð rök fyrir þeim breytingum sem hér eru lagðar til. Þar segir, með leyfi forseta:

„Er henni ætlað að tryggja að Stjórnarráðið sé sem best í stakk búið til að takast á við þau krefjandi samfélagsverkefni sem fram undan eru í samræmi við þær áherslur sem lagðar eru í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar fyrir komandi kjörtímabil.“

Síðan fylgja fleyg orð en innihaldslítil um að allt sé þetta í samræmi við markmið stjórnarsamstarfsins. Kemur svo að rúsínunni í pylsuendanum, með leyfi forseta:

„Eins og sjá má eru þessar breytingar á skipan ráðuneyta síðast en ekki síst til þess fallnar að fella ósýnilega múra stofnanamenningar og stuðla að samvinnu, samráði og samhæfingu innan Stjórnarráðsins.“

Ekki er nóg með að því sé haldið fram að samráð og samvinna verði viðhöfð heldur er fullyrt að tilgangurinn með öllum þessum hræringum sé að stuðla að samráði og samvinnu. Þessar röksemdir eru ósannfærandi þegar að er gáð. Í greinargerðinni er vísað í rannsóknarskýrslu Alþingis sem hugmyndafræðilegan grunn að þeim breytingum sem lagðar eru til. Breytingarnar sem um ræðir eru hins vegar að mörgu leyti í trássi við það sem kemur fram í rannsóknarskýrslu Alþingis. Þar var sérstaklega fundið að því að ráðuneytin væru of mörg og of smá. Í kjölfarið var ráðist í umfangsmiklar breytingar á Stjórnarráðinu til að styrkja það með sameiningu og fækkun ráðuneyta. Það er því pínulítið skondið að við breytingar sem gerðar voru eftir hrun, þar sem farið var í öfuga átt við það sem gert er hér, var vitnað í rannsóknarskýrslu Alþingis.

Ég ætla að færa rök fyrir máli mínu varðandi þá stóru fullyrðingu að ríkisstjórnin hafi ekki sýnt vel getu sína til að tryggja samráð og samstarf á milli ráðuneyta. Ég ætla þá að nefna dæmi sem er mér nærtækt þar sem ég hef starfað með flóttafólki og hælisleitendum síðastliðin ár. Þau málefni heyra undir dómsmálaráðuneyti, a.m.k. stærstur hluti þeirra málefna, afgreiðsla umsókna. Yfir dómsmálaráðuneytinu í þessari ríkisstjórn var og er ráðherra úr Sjálfstæðisflokki. Forsætisráðherra er úr flokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem er með stefnu í málefnum flóttafólks sem ég kann mjög vel við og er mjög sammála og hafði mikla trú á. Ég bar reyndar þá von í brjósti að seta þess flokks í ríkisstjórn hefði mögulega jákvæð áhrif á þann málaflokk. Í tvígang ef ekki þrígang eða fjórgang, ég er hreinlega búin að týna tölunni, hefur dómsmálaráðherra þessarar ríkisstjórnar lagt fram frumvarp til laga um breytingar á lögum um útlendinga sem miðar fyrst og fremst að því að takmarka möguleika flóttafólks til að setjast hér að. Það var dómsmálaráðherra þessarar ríkisstjórnar sem ítrekað varði þá ákvörðun Útlendingastofnunar að vísa börnum, allt niður í nokkurra mánaða aldur, á ruslahaugana í Grikklandi, bókstaflega, þar sem þau eiga sér enga framtíð, ekkert öryggi, ekki tryggt skjól yfir höfuðið, ekki aðgang að fæði eða klæðum, geta vonast til að fá aðstoð í kirkjunni einu sinni á dag, og sannarlega ekki aðgengi að menntun eða öðrum þeim grundvallarlífsskilyrðum sem við álítum sjálfsögð fyrir hvert barn. Ítrekað var reynt að ná tali af forsætisráðherra vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar í málefnum flóttafólks, vegna stefnu flokks forsætisráðherra sem er ekki í samræmi við framkvæmdina, en hún vísaði á dómsmálaráðherra og firrti sig algerlega ábyrgð. Það var dómsmálaráðherra þessarar ríkisstjórnar sem varði þá framkvæmd Útlendingastofnunar að vísa flóttafólki á götuna fyrir það eitt að neita að veita lögreglu beinan atbeina til að flytja þá úr landi og beint aftur í það sem þau myndu flest lýsa sem helvíti. Hvar var samráðið og hvar var samstarfið við þá?

Í þeim tillögum sem við ræðum hér í dag má hins vegar ímynda sér að ákveðnar vísbendingar séu um breytingar á pólitískum áherslum, sem ég vona þó eiginlega ekki. Það varðar breytingar á viðhorfi til menntamála þar sem miklar breytingar eru lagðar til með uppskiptingu á mennta- og menningarmálaráðuneyti. Þar er skólastigum skipt á milli ráðuneyta og annað slíkt sem ítarlega hefur verið farið yfir á fyrri stigum í umræðunni. Í þeim erindum sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd bárust við vinnslu málsins og í samtölum við umsagnaraðila lýstu margir vonbrigðum yfir því að lítill gaumur væri gefinn að verkmenntun í tillögu ríkisstjórnarinnar. Bar þar einnig hátt umsagnir framhaldsskólanna þar sem áhyggjum er lýst af fyrirkomulaginu með tilliti til aldursskiptingar í framhaldsskólum en meiri hluti framhaldsskólanema á Íslandi er á fullorðinsaldri, yfir 18 ára, en ekki á barnsaldri þó að málaflokknum sé skipað undir mennta- og barnamálaráðuneyti. Var áhyggjum lýst af því að ekki væri nægilega mikil hugsun þar að baki. Það er áhugavert að lesa viðbrögð meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar við þessum ábendingum, þau eru ekki efnismikil. Um þetta hefur meiri hlutinn eftirfarandi að segja:

„Meiri hlutinn áréttar mikilvægi framhaldsskólastigsins og brýnir fyrir ráðherra mennta- og barnamála að tryggja öflugt samráð og samvinnu við framhaldsskólana.“

Aftur eigum við að treysta á samráð og samvinnu, væntanlega líka á milli ráðuneyta þar sem þessir málaflokkar lenda þarna á milli.

Þá kom fram í erindi umsagnaraðila að tillagan og greinargerðin með henni, með leyfi forseta:

„… endurspegl[i] þá sýn að æðri menntun og menning séu fyrst og fremst hagvaxtartæki. Með því að tengja menningu við viðskipti og háskólamenntun við iðnað og nýsköpun er hætt við smættun á veigamiklu hlutverki þessara grunnstoða visku, sköpunar og lífsgleði í landinu.“

Rímar þetta við umsögn Menntamálastofnunar sjálfrar, með leyfi forseta:

„Með því að skilgreina framhaldsfræðslu fyrst og fremst sem vinnumarkaðs- og félagslegt úrræði er verið að auka líkurnar á fjarlægð og aðskilnaði frá hinu almenna menntakerfi.“

Þarna er áfram lýst áhyggjum af því að áherslur og viðhorf ríkisstjórnarinnar til menntamála séu að breytast í aðra átt en við myndum kannski mörg vonast til, og einnig umsagnaraðilar. Þá lýstu umsagnaraðilar áhyggjum af því að stofnanir sem sinna hlutverkum nátengdum háskólanum — bókasöfn, jafnvel Háskólabókasafnið sjálft — væru aðskildar háskólastiginu, skólunum. Um þetta er ekki fjallað einu einasta orði í nefndaráliti meiri hlutans. Engin svör. Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar leggur þannig traust sitt á þær þrjár manneskjur sem útfærðu þessi ósköp í reyklausu bakherbergi án samráðs við nokkurn mann, krossleggur fingur og vonar það besta.

Ég ætla að taka undir orð þáverandi þingmanns stjórnarandstöðunnar, núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, þegar hún gagnrýndi breytingar á skipan ráðuneyta fyrir nokkrum árum:

„Fyrsti minni hluti telur málið vanreifað, fyrir því liggi ekki faglegur rökstuðningur, verið sé að tvístra starfskröftum í ráðuneytum í stað þess að samþætta og samnýta í þágu ábyrgrar ráðstöfunar opinbers fjár og sterkari ráðuneyta og loks sé ljóst, af vandræðagangi varðandi kostnaðarmat og skipurit, að undirbúningi var verulega áfátt.“

Þvert á við það sem haldið er fram í greinargerð með tillögunni er margt sem vekur upp áhyggjur af því að breytingarnar kunni að hafa skaðleg áhrif á stöðu margra mikilvægra málaflokka í stjórnkerfinu. Það skortir verulega á að tillagan sé nægilega vel undirbúin og það skortir á að hún sé rökstudd og sá rökstuðningur sem er viðhafður er ekki sannfærandi, eins og ég hef rætt hér. Þannig vekja þær skýringar sem gefnar eru upp spurningar og hreinlega áhyggjur af því að það séu raunverulegir hagsmunir þjóðarinnar, og pólitískt málefnalegir hagsmunir sem ráða för; áhyggjur af því að hér sé fyrst og fremst um pólitískan stólaleik að ræða, stólaleik sem mun ekki einungis kosta ríkissjóð hundruð milljóna, þó að almennilegt kostnaðarmat liggi ekki fyrir, heldur muni leiða af sér kostnað í formi velferðar fólks, jafnvel barna, vegna fyrirsjáanlegrar þjónustuskerðingar sem líkur eru á að hljótist af þessum vandræðagangi. Eins og hér hefur verið margsagt í dag þá liggur fyrir að þessar breytingar voru ákveðnar í mjög þröngum hópi og hefur verið viðurkennt að samráð við sérfræðinga hafi fyrst og fremst verið haft eftir á, samt lítið, og þá í raun bara varðandi það hvernig megi láta þetta gerast án þess að nokkur gaumur hafi verið gefinn að afleiðingum fyrir fram.

Ég ætla að ljúka máli mínu að þessu sinni með því að lesa einfaldlega upp orð hæstv. núverandi forseta Alþingis í minnihlutaáliti við sambærilegar breytingar fyrir réttum áratug og taka undir þau, með leyfi forseta:

„Skipulag Stjórnarráðsins og fyrirkomulag ráðuneyta er vissulega þess eðlis að rétt er og skylt að endurskoða það með reglulegu millibili. Til þess þarf hins vegar að koma betri stefnumörkun og skýrari sýn en birtist í þessari tillögu. Jafnframt er mikilvægt að leitað sé sem víðtækastrar samstöðu um fyrirkomulag þessara mála þannig að það þurfi ekki að vera meðal fyrstu verka hverrar ríkisstjórnar að breyta fyrirkomulagi ráðuneyta í landinu. Tíðar breytingar í þessum efnum draga úr festu og fyrirsjáanleika í stjórnsýslunni og valda vandkvæðum, bæði fyrir þá sem starfa innan Stjórnarráðsins og alla þá sem samskipti þurfa að eiga við það, hvort sem um er að ræða stofnanir, hagsmunaaðila eða einstaklinga.“