152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):

Herra forseti. Ég ætla að vera á jákvæðu nótunum í dag. Í vikunni kom félagshagfræðileg greining á kostum Sundabrautar þar sem koma í ljós ansi áhugaverð tíðindi. Niðurstaða greiningarinnar er sú að verkefnið, hvort sem um brú eða göng er að ræða, hefur mikinn samfélagslegan ávinning og er metin sem samfélagslega hagkvæm framkvæmd. Þjóðhagslegur ábati af Sundabraut samkvæmt greiningunni er áætlaður 186–236 milljarðar kr. til næstu 30 ára. Þetta er samgöngubót sem sparar ekki einungis tíma, bætir lífsgæði, eykur umferðaröryggi og styttir vegalengdir heldur er hún einnig umhverfisvænn kostur þar sem heildarakstur á höfuðborgarsvæðinu gæti minnkað um 150.000 km á sólarhring. Það dregur úr losun koltvísýrings og minnkar slit á vegum. Sundabraut mun verða mikilvæg samgöngubót og það fyrir alla sem ferðast til og frá höfuðborginni, samgöngubót sem mun hafa jákvæð áhrif á byggðaþróun, atvinnulíf og búsetuskilyrði á Vesturlandi til framtíðar ásamt því að létta á umferð á öðrum stofnbrautum. Þetta er risastórt framfaramál. Þetta er stærsta einstaka vegaframkvæmd Íslandssögunnar og þessi skýrsla markar tímamót. Því vil ég þakka sérstaklega hæstv. innviðaráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni, sem hefur leitt þetta verkefni í anda samvinnustefnu Framsóknar og komið því í traustan farveg. Fagleg undirbúningsvinna leggur traustan grunn að góðu verki. Ég bind vonir við að núverandi áætlanir standist og að framkvæmdir við Sundabraut hefjist á tilsettum tíma árið 2026 og að hún verði komin í notkun 2031. Ég mun fagna hverjum áfanga í þessu mikilvæga máli.