152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

ákvörðun um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

248. mál
[15:44]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar og fella inn í samninginn tilteknar reglugerðir á sviði lífrænnar framleiðslu og merkingu lífrænt ræktaðra vara. Einungis önnur reglugerðin, reglugerð (ESB) 2018/848, kallar á lagabreytingar, en hún kemur í stað eldri reglna á þessu sviði sem innleiddar hafa verið í íslenskan rétt. Um er að ræða nýja heildarlöggjöf á sviði lífrænnar landbúnaðarframleiðslu. Markmið með setningu reglugerðar (ESB) 2018/848 er að einfalda regluverkið um lífræna framleiðslu, styrkja eftirlitskerfið með framleiðslunni, stuðla að ábyrgri notkun orku og náttúruauðlinda, viðhalda líffræðilegri fjölbreytni og bæta dýravelferð.

Reglugerðin öðlaðist gildi í ríkjum Evrópusambandsins hinn 1. janúar síðastliðinn. Gert er ráð fyrir að sameiginlega EES-nefndin muni taka ákvörðun um að fella gerðina inn í EES-samninginn 4. febrúar næstkomandi. Munu íslensk stjórnvöld taka ákvörðunina með stjórnskipulegum fyrirvara. Áríðandi er fyrir Ísland og Noreg að gerðin taki gildi gagnvart EFTA-ríkjunum innan EES sem fyrst og þess vegna er þessi tillaga um að leita heimildar Alþingis um afléttingu stjórnskipulegs fyrirvara lögð fram svo snemma. Tafir á gildistöku gerðarinnar geta haft alvarlegar afleiðingar, m.a. fyrir íslenska inn- og útflutningshagsmuni. Hér er sérstaklega átt við innflutning á fóðri fyrir alifugla og fiskeldi. Auk þess er ekki hægt að gefa út nauðsynleg vottorð og vottanir þar sem eldri reglur verða úreltar og hinar nýju hafa ekki tekið gildi.

Virðulegur forseti. Eins og fyrr segir kallar ákvörðunin á lagabreytingar hér á landi. Til innleiðingar mun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggja fram á yfirstandandi löggjafarþingi frumvarp um breytingu á lögum nr. 93/1995, um matvæli, og lögum nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, og um brottfall laga nr. 162/1994, um lífræna landbúnaðarframleiðslu. Það er stefna stjórnvalda að auka lífræna landbúnaðarframleiðslu hér á landi. Enda þótt hinar nýju reglur einfaldi staðla um lífræna landbúnaðarframleiðslu, svo og vottun og eftirlit, undanþágur o.fl., þá geta þær engu að síður haft í för með sér kostnaðarauka fyrir einstaka framleiðendur sem þegar njóta vottunar. Hér er um að ræða tiltölulega fá tilvik en þó einhver.

Ég á von á að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fjalli frekar um þetta atriði þegar frumvarp til innleiðingar kemur til meðferðar þingsins. Utanríkismálanefnd og umhverfis- og samgöngunefnd fengu reglugerð (ESB) 2018/848 til skoðunar á síðasta löggjafarþingi og gerðu ekki athugasemdir við upptöku hennar í EES-samninginn.

Virðulegur forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.