152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

skattleysi launatekna undir 350.000 kr.

7. mál
[15:57]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um skattleysi launatekna undir 350.000 kr., skatta- og skerðingarlaust. Þetta er eitt af forgangsmálum Flokks fólksins og er gjörvallur þingflokkurinn á tillögunni eðli málsins samkvæmt. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að Flokkur fólksins var stofnaður nákvæmlega til þess að vernda þá sem standa höllustum fæti í samfélaginu og hafa það bágast, að reyna að bæta kjör þeirra, að berjast fyrir tilvist þeirra, að gera þeim lífið bærilegt.

Þingsályktunartillaga okkar felur það í sér að Alþingi álykti að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram lagafrumvarp fyrir lok þessa árs, 2022, sem kveði á um í fyrsta lagi að tekinn verði upp svokallaður fallandi persónuafsláttur þannig að skattleysismörk verði við 350.000 kr. og að persónuafsláttur falli niður með sveigðu ferli við ákveðin efri mörk. Margir spyrja: Hvað þýðir það? Hvenær ætlið þið þá að byrja að skerða persónuafsláttinn, mun það ekki bitna á millitekjufólki og annað slíkt? Það er í höndum stjórnvalda. Við erum að reyna að vísa þessu þangað og biðja um aðstoð til að finna hinn rétta punkt. Meðaltekjur eru 800.000 kr. á mánuði. Við erum að berjast fyrir þá sem fá 240.000–260.000 kr. í útborgun á mánuði.

Við erum að kalla eftir því að það sem hefur verið skilið eftir og ekki látið fylgja almennri launaþróun frá því eftir efnahagshrunið 2008 verði leiðrétt. Það er í rauninni lítið sem felst í þessum 350.000 kr. skatta- og skerðingarlaust annað en leiðrétting, sama leiðrétting og allir aðrir þjóðfélagshópar hafa fengið, þar á meðal alþingismenn. Það er ekkert sanngjarnt við það að einstaklingur á ofurlaunum sé með ríflega 53.000 kr. í persónuafslátt á meðan sá sem á ekki til hnífs og skeiðar fær útborgaðar 240.000–250.000 kr. Við viljum ekki mismuna fólki. Við viljum ekki hafa þennan ójöfnuð. Við viljum sanngjarnt, réttlátt samfélag, að við sýnum í raun og veru samhygð með þeim sem þurfa á að halda. Það er þess vegna sem við munum endalaust mæla fyrir þessu máli og ef það gengur ekki eftir núna þá mun upphæðin, eðli málsins samkvæmt, náttúrlega verða hærri næst. Þetta er þjóðfélagshópur sem hefur gengið í gegnum Covid eins og allir aðrir, þetta er þjóðfélagshópur sem er líka að taka á sig stórhækkað vöruverð en á í rauninni engar krónur til að mæta því.

Fyrir kosningarnar 25. september var mikill vilji sýnilegur hjá frambjóðendum allra flokka og málsvara þeirra um að það ætti ekki bara að taka almannatryggingakerfið til gagngerrar endurskoðunar heldur væri ólíðandi að svona stór þjóðfélagshópur hefði úr svo fáum krónum úr að spila, það fáum að margir hverjir geta eftir miðjan mánuð ekki leyft sér nokkurn skapaðan hlut annað en haframjöl, núðlur og hrísgrjón. Við köllum þetta ekki land tækifæranna nema fyrir suma. En það er í höndum Alþingis og ráðamanna að snúa því við.

Í öðru lagi felur þessi þingsályktunartillaga í sér að breytingar verði gerðar á skiptingu útsvars og tekjuskatts af skattstofni til að jafna tekjuáhrif vegna hækkunar skattleysismarka á milli ríkis og sveitarfélaga. Því er þannig háttað að þegar verið er að skattleggja okkur er það fyrst útsvarið sem er tekið þannig að það eru sveitarfélögin sem verða af þessum krónum þeirra tekjulægstu, þeirra sem berjast í bökkum. Það er algerlega eðlilegt og sjálfsagt að þar stígi ríkissjóður inn til þess að jafna það sem út af fellur við það að færa þennan þjóðfélagshóp upp í 350.000 kr. skatta- og skerðingarlaust.

Í þriðja lagi felur þingsályktunartillagan, þetta forgangsmál Flokks fólksins, það í sér að fullur örorkulífeyrir, endurhæfingarlífeyrir og ellilífeyrir tryggi lífeyrisþegum 350.000 kr. í ráðstöfunartekjur, í hverjum einasta mánuði, skatta- og skerðingarlaust.

Í greinargerðinni kemur fram að þessi þingsályktunartillaga hefur áður komið fram, ég mælti fyrir henni á 151. löggjafarþingi, það var 46. mál, en náði ekki fram að ganga. Þess vegna er ég að mæla fyrir henni að nýju og aftur og aftur. Við trúum því að dropinn holi steininn og það hlýtur að enda með því að enginn valdamaður geti snúið blinda auganu að þeirri örbirgð og þeim risabágindum sem tugþúsundir Íslendinga búa við í dag. Efni tillögunnar var áður að finna í tveimur tillögum sem mælt hefur verið fyrir áður og við erum búin að berjast fyrir þessu, Flokkur fólksins, frá því að við komum á þing í desember 2017.

Á undanförnum áratug hefur íslenskur efnahagur dafnað. Það fer ekkert á milli mála. Auðvitað erum við að ganga í gegnum þá holskeflu sem heimsfaraldurinn er. En það á engan veginn að bitna á því fólki í landinu sem hefur það bágast. Það er ekki endalaust hægt að beygja bognu bökin, svo bregðast krosstré sem önnur tré, og það hlýtur að enda með því að í áframhaldandi beygingu muni bakið brotna. Er það það sem við viljum, virðulegi forseti? Nei, en við sjáum það samt sem áður, sama hvert litið er, sjáum það úti í samfélaginu, hversu bágindin eru gríðarlega umfangsmikil. Við sjáum það í brottfalli nemenda úr skólum. Við sjáum það í því hvernig börn fátækra foreldra geta ekki sinnt tómstundum, íþróttum, geta ekki tekið þátt. Við sjáum það í fíknisjúkdómum, vonleysi og vanlíðan. En því miður hafa ekki allir séð og það er okkar hlutverk, a.m.k. þeirra sem sjá, að reyna að opna augu hinna sem munu þá væntanlega taka utan um fólkið okkar og með okkur. Við eigum að gera þetta öll saman, 63 þjóðkjörnir fulltrúar á Alþingi Íslendinga. Við eigum að gera þetta saman. Við eigum að jafna kjörin eins og kostur er. Það er ekki nóg að segja að OECD segi að hér ríki einn mesti jöfnuður allra landa. Eðli málsins samkvæmt koma út ágætislaun hjá mér og einstaklingi með 250.000 kr. á mánuði ef við leggjum það saman og deilum með tveimur, ekki satt? Það þýðir ekki að draga alltaf meðallaun upp úr skúffunni. Það þýðir ekki fyrir þann sem fær útborgaðar 240.000–250.000 kr. á mánuði. Hvernig í ósköpunum getur sá einstaklingur glaðst yfir meðallaunum? Það er ekki hægt. Það er ekki hægt að fara út í búð þegar þú átt ekki krónu 15. eða 20. hvers mánaðar og segja: Ég skora svo hátt í meðallaunum að ég hlýt að geta keypt í matinn þó að ég eigi enga einustu krónu, OECD segir það, excel-skjalið segir það. Það er rosalega jákvætt gagnvart okkur.

Fjöldi fólks hefur misst atvinnu og lent í annars konar fjárhagslegum örðugleikum vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Í fyrstu bundum við vonir við að efnahagsleg áhrif faraldursins yrðu skammvinn og að við myndum fljótt ná aftur fyrri hæðum en svo fór sannarlega ekki. Hinn 28. febrúar næstkomandi eru akkúrat tvö ár frá því að fyrsti Íslendingurinn greindist með Covid-19. Það hillir undir að við förum að losa um allar hömlur og veiran verði látin gossa yfir samfélagið þannig að við náum hinu margumbeðna hjarðónæmi. Á meðan heilbrigðiskerfið okkar stendur það af sér er það í rauninni eina rétta leiðin eins og staðan er í dag. En mér finnst gott að vita að verið sé að reyna að stíga eins varlega til jarðar og hægt er. Það er ekki eins og við séum ekki að reyna að standa vörð. Við stöndum samt sem áður efnahagslega betur að vígi í öllum þessum ömurlegu Covid-málum en margar og flestar aðrar þjóðir og er það vel. En það er sárara en tárum taki þegar við hugsum um það hvernig við höfum horft fram hjá því ár eftir ár, áratug eftir áratug, hvernig ákveðinn samfélagshópur fátækra er talinn sjálfsagður af ríkjandi stjórnvöldum hverju sinni. Það þykir algjörlega sjálfsagt að sjá langar raðir fólks fyrir utan hjálparstofnanir sem er að biðja um mat, það er talið sjálfsagt að lítil börn fái ekki að njóta þeirra vöggugjafa sem þau fæddust með, þeirrar snilligáfu og þeirra hæfileika, vegna þess að þau voru svo óheppin að eiga fátæka foreldra. Það er okkar að breyta þessu. Við erum fámennt samfélag. Við höfum ekki efni á því að virkja ekki allan þann mannauð sem við eigum til. Þess vegna höfum við í Flokki fólksins verið að kalla eftir því að reynt sé að aðstoða öryrkja, fækka öryrkjum án þess að kasta þeim fyrir björg, eins og ég hef svo oft sagt, með því að gefa þeim kost á að fara út á vinnumarkaðinn ef þau mögulega geta án þess að skerða bætur þeirra í ákveðinn tíma til að athuga hvort við getum aðstoðað þau aftur til virkni og vellíðunar úti í samfélaginu.

Það er erfitt að missa fótanna. Það er erfitt að glíma við andlega vankanta. Þunglyndi, neikvæðni og vanlíðan umvefur í raun allt of marga. Þetta er fólkið sem við getum dregið út úr vesöldinni. Þetta er fólkið sem við getum hjálpað. Það eru mjög margir líkamlega hraustir til að takast á við störf og hér er ríkisstjórn sem segir alltaf að það eigi að hvetja alla til virkni. Sennilega er grunnurinn að öllu sem heitir allsherjarendurskoðun almannatryggingakerfisins hið svokallaða starfsgetumat. Það er hræðilegt að mínu mati vegna þess að það er ekkert enn sem komið er sem liggur þar að baki. Það eru engin störf fyrir fólkið sem talið er að geti unnið 30% starf heldur á bara að lækka framfærslu þess hjá Tryggingastofnun sem nemur því mati sem það er talið vera vinnufært um. En við getum, virðulegi forseti, svo auðveldlega hjálpað þessu fólki til sjálfshjálpar. Við getum svo auðveldlega létt því róðurinn.

Við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að um leið og við komum fólki í 350.000 kr. lágmarksframfærslu skatta- og skerðingarlaust er ríkissjóður að fá flestar þessar krónur beinustu leið aftur inn í kerfið. Þetta er hringrásarkerfi hagkerfisins, hagkerfið er hringrásin. Við fáum meiri peninga, við eyðum meiri peningum. Allt í einu geta þessir einstaklingar borgað. Þetta eru einstaklingarnir sem komast ekki í greiðslumat, geta ekki keypt sér íbúð jafnvel þó að það væri ódýrara fyrir þá að greiða af láni en að greiða leigu. Þetta eru þeir sem eru dæmdir á okurleigumarkað þar sem leigan er á bilinu 220.000–300.000 kr. á mánuði fyrir þriggja herbergja íbúð. Hvernig á einstaklingur með 240.000–250.000 kr. útborgað að greiða húsaleigu upp á 220.000 kr. og eiga svo eitthvað eftir til þess að lifa af? Hvernig er hægt að ætlast til að sá einstaklingur geti veitt barninu sínu nokkurn skapaðan hræranlegan hlut? Og hvernig er hægt fyrir sitjandi stjórnvöld að loka augunum fyrir þessu? Hvernig er það hægt, virðulegi forseti? Það á ekki að vera hægt. Þetta er okkur, einni af tíu ríkustu þjóðum í heimi, til slíkrar minnkunar að maður skammast sín nánast fyrir það að vera búin að hrópa hér, skipti eftir skipti, þetta er fimmta árið, og benda á staðreyndir, benda á raunveruleikann. Svona er staðan. Af hverju hjálpum við ekki fólkinu okkar?

Virðulegi forseti. Ég vona að með því að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fái þetta mál í fangið verði virkilega lögð vinna í að skoða hve mikið myndi skila sér aftur inn í ríkissjóð, hvað væru raunverulega margar krónur sem glötuðust með því að koma þessari framfærslu þangað sem hún á heima. Ekki neitt. Flokkur fólksins segir: Við höfum allt að vinna og engu að tapa. Með þessu sýnum við í verki að viljinn er til staðar og við erum hér fyrir alla en ekki bara suma. Ég vísa þessari þingsályktunartillögu til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.