152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

skattleysi launatekna undir 350.000 kr.

7. mál
[16:12]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða tillögu til þingsályktunar um lífsnauðsynlegt mál, 350.000 kr. lágmarksframfærslu almannatryggingaþega. Einhvern tímann heyrði ég sagt, sem er það furðulegasta við það, að það væri eiginlega óframkvæmanlegt að setja þennan hóp í 350.000 kr., það væri svo dýrt. En ég get ekki verið meira innilega ósammála því vegna þess að það sem er dýrt í þessu þjóðfélagi er að hér skuli vera fólk sem er haldið í svo mikilli fátækt, jafnvel sárafátækt, að það á ekki fyrir mat, lyfjum, fötum, hvað þá heimilistækjum, sem eru hálfgerð lúxusvara.

Ef við horfum líka á þetta út frá nýrri könnun sem kom frá verkalýðsfélögunum ASÍ og BSRB um að stór hluti láglaunafólks, fólks sem er á launum, neitar sér um tannlæknaþjónustu, læknisþjónustu og hefur ekki ráð á því að bregðast við kannski um 80.000 kr. óvæntum útgjöldum, hvernig í ósköpunum sjáum við þá fyrir okkur að fólkið sem er á lægstu bótunum, sem eru vel undir fátæktarmörkum og er ekkert annað en sárafátækt, eigi að geta framfleytt sér á þessu?

Það sem er kannski sorglegast í þessu öllu saman er að við gleymum því veigamesta í þessu kerfi: Það eru börnin. Hvernig í ósköpunum höfum við getað réttlætt það áratugum saman að hafa börn í þessum aðstæðum, að börn þurfi að standa í röðum með foreldrum sínum til þess að bíða eftir að fá mat? Það er okkur til háborinnar skammar.

Við skulum fara aðeins aftur í tímann. Árið 1988, þegar tekin var upp staðgreiðsla opinberra gjalda, þá var því þannig háttað að lægstu laun, lífeyrir almannatrygginga, voru ekki sköttuð, ekki tekin króna í skatta af þeim peningum. Það sem var enn þá merkilegra er að það voru 30% eftir af skatttekjunum til þess að setja upp í lífeyrissjóð eða aðrar tekjur. Hvað hefur skeð frá þessum tíma? Jú, skattar hafa stórhækkað. Við erum farin að stórhækka skatta og farin að skatta fátækt fólk, ekki bara fátækt heldur sárafátækt fólk. Hverjir gera svona hluti? Erum við ekki siðað þjóðfélag? Eru ekki mannréttindi og jafnrétti? Hvar eru allar þessar hugsjónir ef við getum hagað okkur svona, ef við segjum við fólk sem hefur ekki einu sinni efni á því að kaupa sér mat: Nei, við skulum samt skatta þig upp á 35.000–40.000 kr. á mánuði? Bara að taka það frá skilar hellingi.

Ef við setjum okkur bara þessar tölur, 350.000 kr. skatta- og skerðingarlaust, er það einhver ofrausn? Er það einhver svakaleg tala? Hún er það ekki, bara langt í frá. Ef við myndum reikna upp bæði launaþróun og taka kjaragliðnun hjá almannatryggingum og myndum reikna þetta upp frá 1988 og heimfæra til dagsins í dag, og hefðum sömu skattstefnu og var, þá er ég alveg sannfærður um að við værum nokkurn veginn á þessari tölu. Við ættum jafnvel, sem væri enn þá betra, eitthvað afgangs upp í lífeyrissjóðina, vegna þess að eins og við vitum eru þeir sem eru á örorkubótum og fá eitthvað frá lífeyrissjóðunum skertir um 38,9% og eldri borgarar um 45,45%. Þessi skattstefna bítur. Hún bítur sérstaklega þá sem eiga minnstan lífeyrissjóð, sem eru að stærstum hluta konur.

Það er eiginlega sorglegt til þess að vita að það hefur hvað eftir annað verið vísað til þess að að meðaltali hafi tekjur almannatrygginga hækkað svo rosalega mikið. Hæstv. fjármálaráðherra hefur hvað eftir annað fullyrt að það sé bara með ólíkindum hversu mikið hafi verið lagt í þær hækkanir, en samt er kjaragliðnun staðreynd. Samt vantar algjörlega 50% upp á bara til að ná kjaragliðnuninni. Það er verið að tala um að endurskoða almannatryggingakerfið en við getum ekki farið í þá endurskoðun fyrr en við tökum á grundvallarréttindum, þ.e. lögfestum samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks. Um leið og við erum búin að lögfesta samninginn, það hlýtur að vera ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin dregur lappirnar við að lögfesta hann, þá geta þeir ekki brotið á réttindum fatlaðs fólks.

Það hlýtur líka að setja margar aðvörunarbjöllur í gang þegar við heyrum ríkisstjórnarflokkana aftur og aftur lofa að núna sé tími þessa fólks kominn, núna sé hann kominn. Þessir einstaklingar geta ekki beðið lengur en þetta er falstal. Þeir bíða enn. Hvar eru stjórnarliðar t.d. hér í þessari umræðu? Þeir gætu sýnt fram á að þeir meini eitthvað með því sem þeir segja um að þetta fólk geti ekki beðið lengur. Það sést enginn. Þau koma ekki hingað upp og taka undir það að 350.000 kr. lágmarksframfærsla, skatta- og skerðingarlaust, eigi rétt á sér.

Og ef við horfum bara aftur í tímann á þá gífurlegu hækkun sem við þingmenn og ráðherrar fengum og setjum það í samhengi við smánarhækkanir sem almannatryggingakerfið hefur fengið, þá er það engin ofrausn, ekki nokkur ofrausn, að við setjum mörkin við 350.000 kr. skatta- og skerðingarlaust og ég myndi segja að það væri bara fyrsta skrefið. Það er fyrsta skrefið til að tryggja það a.m.k. vonandi að það þurfi enginn að fara í þá niðurlægjandi för með börnin sín að standa í röð eftir mat og að enginn þurfi að neita sér um tannlæknaþjónustu. Öryrkjar neita sér um tannlæknaþjónustu. Við sjáum það meira að segja að vinnandi fólk neitar sér um tannlæknaþjónustu. Það hlýtur að vera eitthvað bogið við það þegar við getum auðveldlega reiknað rétta framfærslu. Það er svo auðvelt að reikna nákvæmlega hvað einstaklingur eða fjölskylda þarf til framfærslu. Af hverju gerum við það ekki? Vegna þess að þeir vilja ekki sjá það. Einu sinni kom inn á vef félagsmálaráðuneytisins nokkurn veginn rétt framfærsla en hún hvarf fljótlega vegna þess að það var ekki vinsælt að sýna fram á muninn, það var himinn og haf á milli hjá þeim einstaklingum sem lifðu á þeim smánarbótum sem eru hjá almannatryggingum yfir í það sem virkilega þarf á að halda.

En vonandi, þó að það sé mjög ólíklegt, fer að koma að því að ríkisstjórnarflokkarnir geti ekki hangið lengur á þessu ómannúðlega fjárhagslega ofbeldi sem þeir beita hóp fólks sem hefur enga möguleika nema okkur sem hér erum til þess að verja sig og berjast fyrir sig. Okkur ber skylda til að sjá til þess að enginn lifi í fátækt og okkur ber skylda til að sjá til þess að enginn lifi í sárafátækt. Þar af leiðandi ber okkur líka skylda til að samþykkja 350.000 kr. skatta- og skerðingarlaust. Það er engin ofrausn, bara lágmarkið til að einstaklingar og fjölskyldur þurfi ekki að standa í biðröð eftir mat.