152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

skattleysi launatekna undir 350.000 kr.

7. mál
[16:30]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Það er svo sannarlega til skammar að á Íslandi sé fátækt. Í nýlegri könnun sem gerð var af Vörðu, rannsóknastofnun vinnumarkaðarins, kom fram að yfir þriðjungur fjölskyldna og einstaklinga á við fjárhagsvanda að etja og nær ekki að lifa frá mánuði til mánaðar með þann pening sem þau fá. Í þessum hópi eru aldraðir, það eru öryrkjar og það eru einstæðir foreldrar. Það er svo einfalt mál að laga þetta ef við viljum. Við eigum að vera með skattkerfi sem tekur ekki skatt af þeim lægst launuðu heldur tekur meiri skatt af þeim hæst launuðu. Þeir hafa nú ekki verið spurðir hér á landi, auðmennirnir, en erlendis hafa þeir verið spurðir: Viljið þið borga meiri skatt? Þeir segja já vegna þess að allar manneskjur eru vonandi með þann vott af réttlætiskennd í sér að vera tilbúnar til að hjálpa þeim sem minna mega sín. Eða eins og Warren Buffett, hinn mikli fjárfestir, sagði: Það er skammarlegt að ég skuli borga lægri skatta en konan sem vinnur sem ritari fyrir mig.

Þetta þurfum við að laga og talað hefur verið um að við þurfum að byrja á því að laga skattleysismörkin. Rétt eins og lagt er til í þessari þingsályktunartillögu er það nefnilega þannig að það að laga skattleysismörk eða persónuafslátt er sanngjarnasta leiðin til að láta þá sem lægst hafa launin fá meira í hendur og taka meira af þeim sem meira hafa á milli handanna. En við fáum alltaf sama svarið þegar við byrjum að tala um þetta: Hvernig eigum við að ná í fjármagn til að vega upp allt það sem við töpum ef við tökum ekki pening frá fátæka fólkinu? Jú, í fyrsta lagi: Við hlustum á auðmennina og látum þá borga meiri skatta. Þeir virðast vera tilbúnir til þess. Og jú, hluta af þessum peningum, sem við látum til fólksins sem lifir við fátækt, kemur til baka til ríkisins vegna þess að fólk sem lifir annars á litlu frá degi til dags mun nota þann pening til að kaupa vörur og á vörunum er virðisaukaskattur. Við fáum eitthvað af því til baka og í formi annarra hluta sem ríkið fær til baka.

Nú eru kjarasamningar á næsta leiti og við vitum að þeir verða erfiðir. Við vitum líka að aðilar vinnumarkaðsins munu koma til ríkisstjórnarinnar og óska eftir útspili héðan. Hvernig væri nú að við gerðum eins og hv. þm. Tómas Á. Tómasson lagði til: Við vinnum saman í því að finna út úr því hvernig við getum útrýmt fátækt á Íslandi? Hættum að rífast um það að þetta sé ekki hægt. Þetta er ekki hægt — þetta endalausa blaður. Eða eins og Greta Thunberg sagði í loftslagsmálunum: Bla, bla, bla. Hættum því og setjumst niður og vinnum saman í að leysa það hvernig við útrýmum fátækt á Íslandi í eitt skipti fyrir öll. Viljinn er nákvæmlega það eina sem þarf og ég veit að við höfum viljann til þess að setjast niður.