152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

skattleysi launatekna undir 350.000 kr.

7. mál
[16:35]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni hjartanlega fyrir hans góðu ræðu og frábæran stuðning og hans stóra hjarta. Ég ætlaði ekki endilega að koma upp en hv. þingmaður talar um hvernig við eigum að fjármagna þetta og hvar peningarnir séu. Þá segi ég: Flokkur fólksins hefur ítrekað mælt fyrir því að við tökum staðgreiðslu við innborgun í lífeyrissjóði. Á meðan við erum hress og kát og tilbúin til þess þá greiðum við staðgreiðslu þegar við greiðum inn í lífeyrissjóðinn okkar í stað þess að staðgreiðslan sé tekin við útborgun eins og nú er, þegar fólk er orðið kannski heilsulítið, þegar það er orðið gamalt og hefði meiri þörf á því að fá útborgunina sína án þess að hún sé skattlögð. Ég er að velta fyrir mér hvort hv. þingmaður sé tilbúinn til að skoða þennan möguleika sem við erum margsinnis búin að berjast fyrir. Nú eigum við lífeyrissjóðina okkar en þeir sitja eins og riddarar hringborðsins úti um allt í öllu kerfinu, eiga orðið allt í öllu alls staðar. Við erum komin í samkeppni við okkur sjálf á lánamörkuðum og hvar annars staðar sem er. Þessir sjóðir eiga á sjöunda þúsund milljarða, hvorki meira né minna en á sjöunda þúsund milljarða. Þetta yrðu smáaurar en myndu skila í ríkissjóð umfram á bilinu 60–70 milljörðum kr. á hverju einasta ári. Eins og við höfum margbent á eru þetta smáaurar í stóra samhenginu. Við gætum jafnvel látið gera könnun meðal þeirra sem eiga sjóðina um hvort þeir vildu ekki hreinlega drífa í þessu. Þetta yrði fyrsta skrefið í því að fara að ráðast gegn öllum þessum sköttum, skerðingum og þeim óþverraskap sem í raun og veru allt of stór hluti samlanda okkar býr við í dag.