152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

skattleysi launatekna undir 350.000 kr.

7. mál
[16:38]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrri spurninguna. Ég hef búið í þó nokkuð mörgum löndum og borgað í lífeyrissjóði í þó nokkrum löndum, m.a. í Bandaríkjunum þar sem þeir hafa einmitt bæði kerfin í gangi. Þú getur valið að borga inn fyrir skatta eða eftir skatta og þá tek ég það út með sköttum eða án skatta. Ég tel að það séu svo sannarlega kostir og ókostir við bæði kerfin og myndi styðja að hafa þennan valkost eða skoða hann.

Ég held hins vegar að það mikilvægasta þegar kemur að lífeyrissjóðakerfinu á Íslandi í dag sé að gera það mun gagnsærra en það er. Það var nefnilega þannig í Bandaríkjunum fyrir um 15–20 árum síðan að þá voru sett þau lög um það að hver og einn lífeyrissjóður þyrfti að sýna á skýran hátt hvaða gjöld þeir væru að taka af lífeyrisþegunum við það að leggja pening inn í lífeyrissjóðina. Þetta er hvergi hægt að finna ef ég fer inn á þá lífeyrissjóði sem ég er með á Íslandi. Ég get séð það nákvæmlega í þeim sjóðum sem ég er í erlendis; þegar ég legg inn pening þá tekur lífeyrissjóðurinn þetta margar prósentur í þóknun, á hverju ári taka þeir þetta mikla þóknun, þegar ég tek peninginn út taka þeir svona mikla þóknun. Þetta er hvergi að sjá hjá íslenskum lífeyrissjóðum. Fyrir okkur sem höfum lært um stærðfræði og vaxtavexti þá skiptir máli hver prósenta sem er tekin í þóknun. Þá kannski vitum við að þessi 7.000 milljarðar fara bara í að reka sjóðina eða bæta upp laun þeirra sem stjórna þeim.