152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

skattleysi launatekna undir 350.000 kr.

7. mál
[16:44]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Frú forseti. Þegar ég hugsa um fátækt á Íslandi þá er ekki laust við að ég hugsi um allar afleiðingar fátæktar og allan kostnaðinn sem hún hefur í för með sér fyrir samfélagið. Hverjar eru afleiðingar þess að vera barn sem elst upp í fátækt? Það eru ýmis ýmiss konar afleiðingar og þær eru fæstar góðar. Það sem kemur mér helst í hug þegar ég hugsa til þessa er að fátækt gerir það að verkum oftar en ekki að það er mikil streita inni á heimilum og streita er oft grunnurinn að því að inni á heimilum verður ofbeldi, heimilisofbeldi, ofbeldi gegn börnum og það er vegna streituástands sem er á heimilinu og oftar en ekki eru einnig fjárhagslegar áhyggjur. Það geta verið ýmsar ástæður fyrir heimilisofbeldi en ef þú ert fátækur þá er líklegra að þú sért í meiri hættu sem barn á að upplifa ofbeldi og einnig sem fullorðin manneskja vegna þess að það eru bara bein tengsl á milli þess að upplifa streitu og vera í fátækt eða vera í fátækt og upplifa streitu.

En hvaða aðrir áhættuþættir eru í þessu, t.d. fyrir börn og einnig fyrir fullorðið fólk? Það eru geðsjúkdómar, annars konar veikindi, líkamleg veikindi. Áhættuþættirnir eru mjög margir og ég ætla kannski ekki að telja alla upp hér en það sem ég vil biðja stjórnvöld að hugsa um er að við þurfum að vera framsýn í þessum málum. Við þurfum að hugsa: Ef ég bregst við núna þá kostar það peninga og það þarf að finna út úr því hvernig á að koma með þessa peninga að borðinu. En aftur á móti þá bætum við hag fólks þannig að það mun t.d. leita sér minni aðstoðar hjá heilsugæslu eða sjúkrahúsum eða Kvennaathvarfinu eða einhvers annars staðar vegna þess að það að vera í fátækt er samnefnari yfir alls konar áhættuþætti. Það að börn á Íslandi sé að alast upp í fátækt er bara ótrúlegt. Það þarf ekki að vera þannig ef við erum svolítið framsýn og hugsum um hvernig við viljum hafa samfélagið. Viljum við að börn hafi réttindi til þess að alast upp sem heilbrigðir einstaklingar? Þá tryggjum við það að börn séu ekki við fátæktarmörk, og auðvitað ekki fullorðnir heldur. Mér finnst vera skammsýni að hugsa um næstu mánaðamót, næstu ár. Við þurfum að hugsa um næstu áratugina og hvernig samfélagi við viljum búa í. Við þurfum að hugsa líka um það að ef þú upplifir ofbeldi á heimili ert þú líklegri og í meiri áhættu til að beita ofbeldi á einhverjum tímapunkti og þarna er streita samnefnari yfir alla þessa þætti. Ég hef áhyggjur af því að það séu margar fjölskyldur sem upplifi allt of mikla streitu, hvort sem það er vegna fátæktar eða annarra hluta. En ef við getum eitthvað gert í fátæktaráhrifaþættinum ættum við ekki að hika við að gera það. Ég fagna því bara að verið sé að ræða þessi mál.