152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

skattleysi launatekna undir 350.000 kr.

7. mál
[16:49]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem bara upp til að þakka hv. þingmanni fyrir góða aðkomu hennar að þessu lífsnauðsynlega máli fyrir svo ótrúlega marga. Hún nálgast þetta á þann hátt sem við höfum ítrekað verið að benda á, hvaða afleiðingar fátæktin hefur á börnin og fjölskyldurnar og svo þessi vinkill sem hún bendir á í sambandi við aukið heimilisofbeldi og annað slíkt. Allar rannsóknir hafa sýnt að það fer ekkert á milli mála að það berjast í fátækt og ná ekki endum saman og vita ekki hvort þú getur greitt af húsnæðinu þínu, hvort þú getur tryggt fjölskyldunni þinni fæði, klæði og húsnæði, það er sárara en tárum taki. Ekkert foreldri ætti nokkurn tíma að þurfa að standa í þeim sporum að geta ekki veitt barninu sínu, sem maður elskar mest af öllu í heiminum, það sem almennt þykir eðlilegt í okkar ríka samfélagi. Ég ítreka það.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir aðkomu hennar að þessu þarfa og góða máli og ég segi bara að því fleiri sem við erum og því hærra sem við höfum, þeim mun meiri líkur eru á að á okkur verði hlustað og að við náum þessu þarfa máli í gegn og getum hjálpað þeim sem við viljum hjálpa.