152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

viðmið skaðabótalaga.

[10:56]
Horfa

innanríkisráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Eitt get ég fullyrt við hv. þingmann. Það eru engir þeir hagsmunir sem ráða ferð í þessari löggjöf eða í þessum málum af hálfu mín eða ráðuneytisins eða þingsins, ætla ég að fullyrða, sem taka tillit til hagsmuna tryggingafélaganna sérstaklega umfram þá sem verða fyrir tjóni. Það þarf auðvitað að gæta einhvers jafnvægis í því sem þingið nálgast á hverjum tíma. Ég tek undir það að okkur ber að tryggja að fólk hafi góða réttarstöðu þegar kemur að því að sækja bætur hafi það orðið fyrir slysum eða miska í starfi eða við aðrar aðstæður. Ég er alveg sannfærður um það að þessar bætur voru á sínum tíma allt of lágar. Þróunin, held ég, ef hún er skoðuð án þess að ég geti birt um það tölur, er í þá átt að þessar bætur hafa verið að hækka og ég mun skoða þetta eins og ég hef lofað hv. þingmanni að gera.