152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

umsóknir um alþjóðlega vernd.

[11:16]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Frá árinu 2014 hefur Rauði krossinn á Íslandi, á grundvelli lögbundins stoðhlutverks síns gagnvart stjórnvöldum, sinnt talsmannaþjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd auk ýmissar félagslegrar stuðningsþjónustu samkvæmt samningi við innanríkisráðuneytið. Hefur samningurinn verið endurnýjaður nokkrum sinnum en gildistími núgildandi samnings er til 28. febrúar næstkomandi eða eftir sléttar fjórar vikur. Þegar Rauði krossinn falaðist í byrjun nóvember sl. eftir upplýsingum um hvort til stæði að framlengja samninginn í samræmi við ákvæði hans var fátt um svör. Eftir ítrekaðar fyrirspurnir svaraði ráðuneytið því til að vegna breyttrar skipanar ráðuneyta og flutnings félagslegrar þjónustu við hælisleitendur frá dómsmálaráðuneyti til félagsmálaráðuneytis væru forsendur fyrir samningnum brostnar og yrði hann því ekki framlengdur.

Vandinn hér er sá að breytt skipan ráðuneyta og flutningur verkefna þeirra á milli á ekki að hafa nein áhrif á samninga sem stjórnvöld hafa gert við aðila úti í bæ um þau verkefni. Má því segja að spurningum um ástæður þess að synjað var um framlengingu samningsins með svo skömmum fyrirvara sé enn ósvarað. Eins og staðan er þiggja um 750 einstaklingar þjónustu Rauða krossins samkvæmt samningnum. Hjá Rauða krossinum starfa jafnan um 15 lögfræðingar sem sinna hlutverki talsmanna umsækjenda um alþjóðlega vernd í samræmi við rétt þeirra samkvæmt lögum um útlendinga, auk um 45 sjálfboðaliða sem koma að verkefnum með ýmsum öðrum hætti. Þá krefst verkefnið utanumhalds og innviða sem stutt hafa við önnur mikilvæg verkefni sem félagið sinnir. Á þeim tæplega átta árum sem Rauði krossinn hefur sinnt þessari þjónustu hefur byggst upp gríðarleg þekking og verklag verið mótað sem hefur gefist einkar vel.

Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað hyggst ráðherra gera til þess að tryggja réttaraðstoð við umsækjendur um alþjóðlega vernd eftir að samningi við Rauða krossinn sleppir?