152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

umsóknir um alþjóðlega vernd.

[11:19]
Horfa

innanríkisráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Stutta svarið við spurningu hv. þingmanns, þegar spurt er: Hvað hyggst ráðuneytið gera til að uppfylla þjónustuna sem er lögbundin?, er að það hyggst fara að lögum eins og þess er von og vísa í öllum störfum og það á við undirstofnanir þess líka. Þær breytingar urðu á þessum málum núna við myndun ríkisstjórnarinnar að það urðu tilfærslur á verkefnum. Félagslega þjónustan færist núna yfir á félagsmálaráðuneytið á meðan talsmannaþjónustan, lögfræðiþjónustan, er á vettvangi dómsmálaráðuneytisins og Útlendingastofnunar. Við þær aðstæður þykir eðlilegt í ráðuneytinu, það hafði farið fram einhver skoðun á því áður en ég kom þarna og ég tek bara undir það, að endurskoða þennan samning. Mín afstaða er nokkuð skýr almennt séð í þessum efnum, að svona verk sem hlaupa á miklu fjármagni eigi að bjóða út og þannig uppfylli ríkið sína þjónustu, það eigi að leita eftir hagstæðasta verði fyrir þá þjónustu sem það veitir, þegar hún er aðkeypt.

Hitt er svo annað mál, og fyrir því ber ég mikla virðingu fyrir Rauða krossinum, augljóslega, þar sem ég kem sjálfur úr grasrótarsamtökum sem hafa mannúðarmál að leiðarljósi, þ.e. björgunarsamtökunum, og því starfi sem þar er innt af hendi af hálfu sjálfboðaliða. Það er mörgu leyti mjög réttlætanlegt þegar ríkið stígur fram og gerir þjónustusamninga við slíka aðila um ákveðin verkefni, innrömmuð verkefni, þar sem sjálfboðaliðaþjónustan er jafnvel hluti af lausn mála, (Forseti hringir.) eins og við höfum svo skýr dæmi um í okkar samfélagi.