152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

umsóknir um alþjóðlega vernd.

[11:21]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör að mörgu leyti. Að sögn Rauða krossins hefur fengist vilyrði fyrir framlengingu samningsins um tvo mánuði, eða til loka aprílmánaðar, sem vekur ákveðna undrun í ljósi fullyrðinga ráðuneytisins um brostnar forsendur. Ég spyr: Ef unnt var að framlengja samninginn um tvo mánuði, hvers vegna var ekki hægt að framlengja hann um tólf svo svigrúm fengist til farsællar yfirfærslu til nýrra aðila, færi það svo að aðrir tækju við keflinu af Rauða krossinum?

Spurning mín til ráðherra er þessi: Telur ráðherra tvo mánuði nægjanlega langan tíma til þess að byggja upp þjónustuna í höndum annarra en Rauða krossins svo ekki verði rof á þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd?