152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[12:41]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Hér hafa margir hv. þingmenn komið upp og margrætt þörfina á að Stjórnarráðið lagi sig að breyttu samfélagi og ég tek undir það. Skipulag Stjórnarráðsins er sannarlega þess eðlis að rétt er að endurskoða það með reglulegu millibili og að það lagi sig að breyttu samfélagi. Til að svo megi vera þarf hins vegar mun betri stefnumörkun og mun skýrari sýn en hér er um að ræða. Þá þarf að leita víðtækrar samstöðu — og þá ætla ég að vitna í orð hæstv. forseta frá því fyrir mörgum árum síðan, sem ég tek undir heils hugar — til þess að það þurfi ekki að vera verk hverrar ríkisstjórnar að breyta Stjórnarráðinu. Of tíðar breytingar eru til þess að draga úr festu og fyrirsjáanleika og valda vandkvæðum. Það á því ekki að vera með eitthvert hringl að óþörfu. Laga þarf Stjórnarráðið að breyttum samfélagsaðstæðum á faglegum forsendum. Ég hef raunverulegar áhyggjur af því að þessar breytingar muni hafa skaðleg áhrif á stöðu mikilvægra málaflokka innan Stjórnarráðsins. Ég held að þetta muni leiða til þess að gera þurfi breytingar aftur innan skamms, áður en langt um líður, (Forseti hringir.) og þetta hringl á vafasömum forsendum er sannarlega ekki það sem átt er við (Forseti hringir.) þegar tekið er undir að það sé á valdi ríkisstjórnar (Forseti hringir.) hverju sinni að skipa málum í samræmi við eigin pólitísku stefnu.

(Forseti (BÁ): Forseti verður enn að minna á ræðutímann í þessu formi. Þegar hv. þingmenn geta gert athugasemd um atkvæðagreiðslu er einungis gert ráð fyrir að ræðutími sé ein mínúta en ekki ein eða hálf eða eitthvað þaðan af lengra.)