152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

253. mál
[15:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 38/2020. Á grundvelli þeirra laga hafa rekstraraðilar getað sótt um lokunarstyrk til Skattsins hafi þeir tímabundið þurft að loka eða stöðva sína starfsemi vegna ákvarðana heilbrigðisráðherra um takmarkanir á samkomum.

Ákvæði II. kafla laganna, sem fjallar um lokunarstyrki, eru enn í gildi en lögbundinn frestur til að sækja um styrkina rann út 30. september 2021. Með hliðsjón af því að gripið hefur verið til þess að nýju að skylda ákveðna rekstraraðila til að loka eða stöðva sína starfsemi vegna kórónuveirufaraldursins er í frumvarpinu lagt til að gildistími lokunarstyrkjaúrræðisins verði framlengdur til 30. júní á þessu ári. Einnig er lagt til að gerðar verði nokkrar minni háttar breytingar á lögunum sem skýrast af ólíkum þáttum en allar stafa af því að nú er lengra liðið á faraldurinn en síðast þegar lögunum var breytt. Í öllum meginatriðum er lagt til að um verði að ræða sambærilegt lokunarstyrkjaúrræði og verið hefur í gildi um fyrri lokunartímabil í faraldrinum.

Lagt er til að hámarksfjárhæð lokunarstyrkja verði hækkuð úr 260 millj. kr. í 330 millj. kr. Þessi hækkun á rætur að rekja til tímabundins ramma Evrópusambandsins um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfinu vegna heimsfaraldursins. Upphaflega gilti tímabundni ramminn til 31. desember 2020 en hann hefur verið framlengdur og gildir nú út júní 2022. Hámark styrkfjárhæðanna gildir ekki bara fyrir einstakar tegundir styrkja eða einstaka rekstraraðila heldur ber, eins og áður, að leggja saman lokunarstyrki frá miðjum september 2020, tekjufallsstyrki, viðspyrnustyrki og ferðagjafir. Þá er lagt til að styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma vegna faraldursins, sem til stendur að leiða í lög á yfirstandandi þingi, samanber frumvarp á þskj. 332, mál 232, falli einnig þar undir.

Öll framangreind úrræði falla í sama flokk ríkisaðstoðarrammans og því undir sama viðmið um hámarksfjárhæð. Þá gildir einnig sama hámark fyrir tengda aðila í rekstri þ.e. þeir deila einni hámarksfjárhæð óháð því um hve marga tengda aðila er að ræða. Loks eru lagðar til tvær breytingar á skilyrðum lokunarstyrkja. Lagt er til að skilyrðið um að bú rekstraraðila megi ekki hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta eða slita verði rýmkað á þann veg að þar undir falli ekki slit ef þau eru liður í samruna, skiptingu eða breytingu á rekstrarformi rekstraraðilans sem fyrirhugað er að haldi áfram í rekstri þess lögaðila sem við tekur. Þá er lagt til að viðmiðunartímamark um skilvísi á opinberum gjöldum, sköttum og skattsektum verði fært fram og verði 1. ágúst 2021 í stað loka árs 2019 vegna lokunartímabila frá 15. janúar 2022.

Úrræðið flokkast sem tilkynningarskyld ríkisaðstoð samkvæmt EES-samningnum og hefur Eftirlitsstofnun EFTA verið tilkynnt um málið.

Gert er ráð fyrir að áhrif yfirstandandi lokunartímabils á ríkissjóð, sem varir til og með 2. febrúar 2022, verði ekki meiri en 100 millj. kr. Afkoma ríkissjóðs mun versna sem því nemur en ekki er gert ráð fyrir lokunarstyrkjum í fjárlögum fyrir árið 2022. Aftur á móti var fjárheimild ársins 2021 til lokunarstyrkja ekki nýtt til fulls og kæmi til álita að heimila flutning óráðstafaðra fjárveitinga frá síðasta ári til að mæta þessum vænta kostnaði vegna lokunarstyrkja á árinu 2022. Ekki liggja fyrir upplýsingar um heildaráhrif þess á ríkissjóð að framlengja lokunarstyrki. Það er erfitt að meta slíkt.

Lagt er til að gildistími á framlengingu úrræðisins verði fram á mitt ár 2022. Heildaráhrif á ríkissjóð af úrræðinu fram að þeim tíma ráðast af því hvort meira verði um lokanir og hve mikið fyrirtæki koma til með að nýta sér úrræðið, sem er valfrjálst og eðli máls samkvæmt sækja þarf um sérstaklega.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.