152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

afnám 70 ára aldurstakmörkunar í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

160. mál
[18:00]
Horfa

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég styð þá þingsályktunartillögu sem er hér til umræðu. Þetta er góð nálgun, sérstaklega sú áhersla að þetta verði unnið í samvinnu og sátt við samtök opinberra starfsmanna. Þessi þingsályktunartillaga rímar líka mjög vel við áherslur Framsóknar í síðustu kosningabaráttu. Þar lögðum við m.a. áherslu á að fólk geti ákveðið starfslok sín óháð aldri. Og ef fólk vill og getur unnið þá á það að eiga möguleika á því að vinna, vegna þess að fólk missir ekki hæfni til að vinna þegar það vaknar að morgni á 70 ára afmælisdegi sínum. Starfslok eru upp á starfsmann og vinnuveitenda komin, ekki reglur sem veita nær ekkert svigrúm. Þetta er einnig mikilvægt lýðheilsumál og getur verið hluti af því að halda fólki áfram virku í samfélaginu. Okkur er alveg ljóst að það er nauðsynlegt að fara í stórar kerfisbreytingar með samvinnu að leiðarljósi og í því höfum við mjög góða reynslu. Þar ætla ég að nefna þá vinnu sem farið var í á síðasta kjörtímabili í félags- og barnamálaráðuneytinu þar sem hæstv. ráðherra Ásmundur Einar Daðason leiddi vinnu um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Þar voru fengnir að borðinu aðilar með þekkingu á barnamálum og var mikil vinna lögð í samstarf og samvinnu til að fá heildarsýn í málefnum barna. Þetta heppnaðist mjög vel og við þurfum að gera það sama í málefnum aldraðra.

En svo vil ég einnig nefna að þessi þingsályktunartillaga tekur einungis á litlum hluta þeirra takmarkana sem viðkoma aldri í íslenskum lögum og reglugerðum. Í íslenskum lögum eru ýmsar aldurstakmarkanir og sjálf er ég þeirrar skoðunar að það sé þörf á því að endurskoða bara öll aldurstakmörk hjá fullorðnum einstaklingum, 18 ára og eldri, og þá helst með það í huga að afnema sem flest aldurstakmörk. Ég vil enda ræðuna á setningu sem ég sagði mjög oft í kosningabaráttunni og ég vil leggja sérstaka áherslu á, að aldur er ekki hæfniviðmið.