152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

blóðgjöf.

226. mál
[17:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Frú forseti. Það vantar alltaf blóð í Blóðbankann til að bjarga mannslífum í massavís. Þetta er mjög mikilvæg stofnun, Blóðbankinn, og ein fallegasta mannréttindabarátta sem við verðum vitni að dagsdaglega er barátta karla, sem mega samkvæmt gildandi reglum ekki gefa blóð, fyrir því að mega gefa blóð, barátta aðallega fyrir því að geta hjálpað öðru fólki. Það er nefnilega þannig að samkvæmt núgildandi reglum Blóðbankans má ekki undir neinum kringumstæðum gefa blóð ef viðkomandi er karlmaður sem hefur haft samfarir við sama kyn. Það er ekkert verið að greina þetta neitt nánar, ekkert verið að skoða hvort viðkomandi stundi áhættusamt kynlíf eða leggjast í einhverja djúpa greiningu. Nei, kynlíf hinsegin karla er einfaldlega flokkað sem áhættuhegðun í sjálfu sér. Þetta er því ekki bara spurning um að berjast fyrir því að mega hjálpa öðrum. Þetta er líka spurning um að afmá fordóma sem eru innbyggðir í þessar reglur vegna þess að þetta eru reglur sem endurspegla ekki getu kerfisins til að tryggja öryggi blóðþega fyrir þeim sjúkdómum sem kerfið setti þessar reglur upphaflega til að verja þá fyrir. Fjöldi ríkja hefur sett reglur þar sem blóðgjöfum er ekki mismunað út frá kynhneigð. Ítalía t.d. hefur ekki mismunað blóðgjöfum frá aldamótum og hvert ríkið á fætur öðru er að bætast í þann hóp. Bretland gerði það í sumar, Frakkland og Grikkland núna í janúar.

Það var nefnilega dálítið skemmtilegt, frú forseti, þegar við sátum á opnum fundi Samtakanna ´78 9. september og þáverandi heilbrigðisráðherra tilkynnti að hún ætlaði að afnema þessa fordóma úr íslenska kerfinu. Hún kynnti drög að reglugerð þar sem yrði skýrt tekið fram í fyrsta lagi að ekki mætti mismuna blóðgjöfum af ómálefnalegum ástæðum. Í öðru lagi bara að skilgreina áhættusamt kynlíf óháð kynhneigð og í þriðja lagi það fólk sem stundaði áhættusamt kynlíf óháð kynhneigð mætti ekki gefa blóð í fjóra mánuði eftir að það hefði stundað það kynlíf. Skýr og einföld breyting til að leyfa öllu fullfrísku fólki sem stundar öruggt kynlíf að gefa blóð og láta gott af sér leiða með því.

Umsagnarfrestur um drögin var til 23. september. Svo komu kosningar tveim dögum seinna. Reglugerðin átti að taka gildi núna 1. janúar síðastliðinn og hefur ekki birst aftur. Þannig að mig langar að spyrja, frú forseti: Ekki var þetta bara brella rétt fyrir kosningar eða er eitthvað í alvöru að frétta innan úr ráðuneytinu af þessu máli?