152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

blóðgjöf.

226. mál
[17:20]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda kærlega fyrir að setja þetta mál á dagskrá og hæstv. ráðherra sömuleiðis fyrir svörin. Sú sem hér stendur spurði þáverandi heilbrigðisráðherra árið 2017 út í þessa heimild, hvort ekki ætti að skoða þessi mál þar sem þá lá fyrir blátt bann gegn blóðgjöf samkynhneigðra karlmanna, sem er kannski réttara að tala um núna sem karlmenn sem eru með körlum. Þannig að ég gleðst yfir því að ég heyri að ráðherra ætlar að taka þetta föstum tökum og við megum eiga von á að þetta batni smám saman. Ég fagna því. Þetta hefur tekið langan tíma. Þetta er mikilvægt réttindamál og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson fór ágætlega yfir stöðuna.

Ég vil í lokin bæta því við sem heilbrigðisráðherra Frakklands, sem tilkynnti nú á dögunum að þetta yrði með öllu afnumið, (Forseti hringir.) hvers kyns takmarkanir á blóðgjöfum karlmanna sem eru með öðrum karlmönnum. Hann sagði að við gætum einfaldlega (Forseti hringir.) ekki lengur réttlætt þetta ójafnrétti.