152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

blóðgjöf.

226. mál
[17:28]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Frú forseti. Ég held kannski áfram á sömu nótum og hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson að lýsa eindreginni ánægju með að málið virðist ekki hafa verið svæft í ráðuneyti eins og við óttuðumst heldur eigi að klára þessa reglugerð. Það vekur þó ákveðna furðu hversu langan tíma það tekur af því að ég hefði haldið að ráðherra hefði verið að kynna þarna í september drög að reglugerð sem hefði farið í gegnum innra samráð milli ráðuneytis og stofnana þess. En hér er hæstv. núverandi heilbrigðisráðherra að segja að það þurfi að fara í samráð með fagaðilum og vera með einhverja innleiðingaráætlun með þeim — sem ég hefði haldið að hefði klárast á síðasta ári. En gott og vel. Nú erum við komin á þennan stað og horfir vonandi til betri vegar.

Það er kannski rétt að nefna svona í framhjáhlaupi, vegna þess að ráðherrann nefndi mikilvægi þess að eiga samráð við fagaðila, að auðvitað er líka mikilvægt að eiga samráð við hagsmunasamtök hinsegin fólks í því samhengi, sem hafa ekki heyrt mikið frá ráðuneytinu varðandi þessi mál síðan drögin birtust fyrst. Alla vega ekki eftir kosningar. Þá virðast einhvern veginn allar símalínur upp í ráðuneyti lengjast í þessu máli.

Nú, en hvað skal segja? Það er auðvitað fínt að þetta sé að klárast. En þegar upp er staðið er þetta líka mjög einfalt mál og snýst bara um að nema úr gildi, eins og hv. þm. Jódís Skúladóttir nefndi, afgamla fordóma í kerfinu. Þetta kallar í rauninni ekkert á mikið meira en bara smá tíma til undirbúnings, sem ég hefði haldið að hefði lokið síðastliðið sumar, og síðan fjármagn í betri skimunartæki. Þetta er bara praktískt verkefni fyrir sérfræðinga Blóðbankans að skima blóð og svo bara kýla þetta í gegn. Svo er hin leiðin sem hefði getað verið farin sem hefði verið að treysta hommum eins og öðrum blóðgjöfum er treyst en það virðist ekki hafa verið fær leið uppi í ráðuneyti.