152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

blóðgjöf.

226. mál
[17:30]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og tek undir hvert orð sem hér hefur komið fram, þetta er grundvallarréttlætismál. Mér fannst eilítið óljóst með innleiðingarferlið sem ég rek aftur til 2018–2019 og ég skil spurningarnar hér, af hverju þetta hefur tekið svo langan tíma og af hverju þetta þarf endilega að taka þennan tíma fram á vorið. Mér fannst það einnig óljóst og spurði hvenær það yrði klárað og fékk þau svör að það yrði á vormánuðum. Vonandi verður það nú ekki seinna en það, miðað við þann tíma sem innleiðingarferlið hefur tekið. Það er alveg í takt við það sem ég skoðaði í ágætissamantekt um hvernig þetta hefur átt sér stað hjá öðrum þjóðum. Mögulega er hægt að gera það fyrr vegna þess að þetta snýr að því að hlutast til um fræðslu- og kynningarstarfið og taka upp þessa NAT-skimun. Ég verð þá að spyrja hvað tefur það vegna þess að annað er klárað í þessu innleiðingarferli. Ég held að það hafi verið mjög gott skref sem fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra tók með skipan ráðherranefndar og ég get ekki annað séð en að þar hafi verið mjög fordómalaus fagmennska á bak við allt ferlið. Mér sýnist á öllu að málið hafi verið vel unnið og ég er mjög ánægður með að það sé komið á þennan stað. Ég vil líka segja í lokin að ég mun stoltur skrifa undir breytingarnar á reglugerðinni, en forveri minn í starfi, hæstv. heilbrigðisráðherra Svandís Svavarsdóttir, á allar þakkir skildar fyrir þetta mál.