152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

um fundarstjórn.

[13:31]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Hingað kem ég upp þriðja sinni, því miður, til þess að vekja athygli á þeirri alvarlegu stöðu sem er uppi, sem er sú að stjórnvöld neita að fara að lögum og afhenda þinginu gögn sem þingið hefur farið fram á. Ég óskaði eftir því fyrir nokkru síðan að forseti skærist í leikinn til að tryggja virðingu þingsins og kvaðst hann myndu verða við því. Staðan núna er sú að stjórnvöld neita enn að afhenda þinginu umsóknir um ríkisborgararétt, sem þeim ber, ásamt þeim gögnum sem þeim eiga að fylgja. Þessu neita þau staðfastlega og ráðherra kemur fram í fjölmiðlum og staðfestir þá neitun ítrekað. Ég beini því þeirri spurningu minni til hæstv. forseta: Hvað er að frétta?