152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

um fundarstjórn.

[13:34]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég má til með að nefna það í þessu samhengi að allsherjar- og menntamálanefnd var einhuga um að biðja ráðherrann um að koma á sinn fund til að ræða þetta mál, fá skýringar á þessu framferði stjórnvalda gagnvart þinginu. Ráðherra sér sér ekki fært að koma fyrir nefndina fyrr en eftir tæpar tvær vikur. Á meðan bíða tugir einstaklinga í algjörri óvissu um framtíð sína, um leyfi til að vera hér á landi í öryggi og um það sem á eftir kemur. Hér er uppi alger pattstaða. Stjórnvöld svara engu öðru en því að þessi gögn muni berast þegar þeim hentar samkvæmt þeirra hugmyndum og ráðherra hefur ekki tíma til að koma og svara fyrir framkomu sína gagnvart þinginu.