152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

loftslagsmál.

[14:25]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Loftslagsmálin eru stærsta áskorun okkar tíma og því vel við hæfi að ræða þau oft og lengi á Alþingi. Um leið og ég þakka málshefjanda, hv. þm. Andrési Inga Jónssyni, fyrir frumkvæðið að umræðunni vil ég taka fram að ég mun nálgast umræðuna með þeim hætti að áður en ég sný mér að því að svara þeim spurningum sem er sérstaklega beint til mín tel ég nauðsynlegt að ræða í stuttu máli um heildarmyndina.

Ríkisstjórnin leggur höfuðáherslu á loftslagsmál, líkt og endurspeglast í stjórnarsáttmálanum. Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er í gildi og unnið er að því að tryggja framkvæmd þeirra aðgerða sem þar eru tilgreindar með það að markmiði að stjórnvöld nái markmiðum sínum í þessu stóra verkefni. Þrátt fyrir mjög góð og göfug markmið í loftslagsmálum búum við við þær aðstæður í dag að blikur eru á lofti í raforkumálum. Það birtist m.a. í því að vegna slæms vatnsárs geta raforkuframleiðendur ekki afhent þeim aðilum sem keypt hafa skerðanlega orku þá raforku sem þörf er á. Það hefur þær afleiðingar að í tilviki fiskimjölsverksmiðja þarf að brenna 20.000–30.000 tonnum af olíu til að keyra þær. Ef við setjum þetta í samhengi þá eru 30.000 tonn af olíu um 20% af allri olíunotkun fiskiskipa árið 2020 og um 11,5% af allri olíunotkun bifreiða á Íslandi 2020. Bent hefur verið á að þetta jafngildi því að sá árangur sem náðst hefur í að draga úr losun frá bifreiðum með rafbílavæðingu Íslendinga frá árinu 2010 til dagsins í dag hverfi vegna þessara aðstæðna.

Nú um mánaðamótin kemur til skerðingar til fjarvarmaveitna en þær eru kaupendur skerðanlegrar orku. Þessar mikilvægu veitur nota 1% af raforku Íslands. Ef við tökum Orkubú Vestfjarða sem dæmi mun sú veita þurfa að brenna olíu til að kynda hús á Vestfjörðum. Útblástur margfaldast við að skipta yfir í olíu en forstjóri Orkubús Vestfjarða upplýsti í frétt á RÚV í dag að áætlað er að útblástur verði um 9.800 tonn á næstu mánuðum en yfirleitt er hann 800 tonn. Sama er uppi á teningnum varðandi aðra aðila sem keypt hafa skerðanlega orku. Ég tel því meginverkefni okkar í dag ekki vera að tala um hvað við ætlum að gera í loftslagsmálum heldur að framkvæma það sem þarf að gera til að ná markmiðum okkar. Þar liggur áhersla mín, á aðgerðir sem tryggja að sá grunnur sem allar aðgerðir okkar og áætlanir hvíla á sé sterkur.

Ef orkuskiptin eiga að skila tilætluðum árangri verður að vera til staðar græn orka. Það er staðreynd sem ekki verður horft fram hjá. Við megum engan tíma missa. Í þessu samhengi er rétt að taka fram að ég hyggst á næstu vikum leggja fram tvö frumvörp sem hafa það að markmiði annars vegar að bæta nýtingu virkjana og hins vegar að leiða af sér orkusparnað.

En að spurningum málshefjanda. Í aðdraganda COP26 voru aðildarríki samningsins hvött til að kynna uppfærð markmið í loftslagsmálum og tilkynnti Ísland um uppfært markmið samningsins í febrúar 2021. Markmiðið hljóðaði upp á 55% heildarsamdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 miðað við losun árið 1990 í samfloti við ESB og Noreg. Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar setti Ísland fram sjálfstætt markmið um 55% samdrátt í losun á beinni ábyrgð Íslands miðað við 2005. Nú er unnið að því að uppfæra og aðlaga aðgerðaáætlun í loftslagsmálum að þessu nýja markmiði. Vinnan mun fara fram í góðu samráði við sveitarfélög, atvinnulífið og haghafa og hef ég lagt fyrir ráðuneyti mitt að kortleggja og setja fram samráðsáætlun fyrir næstu mánuði. Íslensk stjórnvöld eru ekki komin á þann stað að taka ákvörðun varðandi frekari uppfærslu á loftslagsmarkmiðinu. Fyrst þarf að fara í frekari greiningar á mögulegum nýjum og uppfærðum aðgerðum því í slíkri tilkynningu þarf að skýra með hvaða hætti ríkin ætla að ná þessum árangri.

Varðandi sameiginlega markmiðið með ESB og Noregi þá uppfærir Ísland ekki einhliða það markmið sem falið er í samkomulaginu en ríkin deila þar ábyrgð á samdrætti samkvæmt reglum og samkomulagi þar um. Ljóst er að markmið Íslands um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnishlutleysi eigi síðar en árið 2040 og að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040 fyrst þjóða er með metnaðarfyllri markmiðum ríkja. Ísland er meðal þeirra ríkja sem ætlar að draga vagninn í baráttunni við loftslagsvána en það er hins vegar ljóst að það veltur á samstarfi allra ríkja heims að tryggja að hnattræn hlýnun haldist innan við 1,5°C.

Í júní í fyrra var markmið um kolefnishlutleysi eigi síðar en árið 2040 samþykkt hér á Alþingi. Það setur Ísland í hóp fárra ríkja sem hafa lögfest slík markmið. Eins og fram hefur komið er unnið að uppfærslu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum að nýju markmiði ríkisstjórnarinnar. Þessi vinna felur m.a. í sér að settir verða fram skýrari árangursmælikvarðar fyrir aðgerðir sem og áfangamarkmið um samdrátt í losun. Vinnan er ekki svo langt komin að rætt hafi verið um lögfestingu áfangamarkmiða. Hins vegar get ég minnt á að sameiginlega markmið Íslands með ESB og Noregi um þátttöku í sameiginlegu samdráttarmarkmiði ríkjanna hefur verið lögfest í lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012. Í því markmiði og reglum þar um er sett árlegt samdráttarmarkmið (Forseti hringir.) á beina ábyrgð hvers ríkis þar sem ákveðið er hámark losunarheimilda fyrir hvert ár á tímabilinu 2021–2030 og fer fram árlegt uppgjör, (Forseti hringir.) í fyrsta sinn árið 2023 vegna ársins 2021.

Virðulegur forseti. Mér þykir það miður en ég næ ekki að klára að svara þessum spurningum, sem segir okkur bara að við þurfum að ræða þetta aftur.