152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

loftslagsmál.

[14:33]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir umræðuna um þetta málefni, sem er mjög þörf. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar snúa mikilvægustu markmiðin að loftslagsmálum og segir þar að hugmyndafræði sjálfbærni og réttlátra umskipta og aukinnar samkeppnishæfni verði leiðarstef ríkisstjórnarinnar vegna loftslagsvárinnar. Ríkisstjórn boðar að markmiðum hennar verði fylgt eftir með aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Ísland á að vera í fararbroddi í umhverfismálum á alþjóðavísu og við höfum öll metnað til þess að ná því markmiði, allt frá því að flokka sorp til þess að geta treyst því að þegar við kveikjum ljósið eða hækkum á ofnunum hjá okkur að við séum ekki að skapa fleiri kolefnisfótspor en við viljum skilja eftir okkur í þessu jarðlífi.

Við stærum okkur oft af því að sú raforka sem framleidd er hér á landi komi nær eingöngu úr endurnýjanlegum orkugjöfum. En er það öruggt að við getum sagt það sama eftir fimm ár? Meðal þess sem er mikilvægast í baráttu okkar gegn loftslagsvánni er að halda okkur við það markmið í raforkuframleiðslu að við keyrum einungis á endurnýjanlegum orkugjöfum, bæði fyrir atvinnulífið og heimilin. Það er ástæða til að óttast að nú fari að draga til tíðinda sem við verðum að bregðast við. Vatnsbúskapur landsins er þannig núna að Landsvirkjun sér ekki fram á að geta afhent orku eins og þarf til fyrirtækja og orkufyrirtækja í landinu. Því er staðan núna sú að Orkubú Vestfjarða þarf að brenna mörg þúsund lítra af olíu til húshitunar á Vestfjörðum á næstu mánuðum. Þetta er eftir að Landsvirkjun tilkynnti að hún afhenti enga raforku til kaupenda af skerðanlegri orku vegna orkuskorts. Viljum við vera þar?