152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

loftslagsmál.

[14:57]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Frú forseti. Íslensk stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og aðgerðaáætlun til að fylgja þeim eftir, eins og hér hefur rækilega verið minnt á. VG var fyrsta stjórnmálaaflið til að setja loftslagsmálin á dagskrá og hægt og bítandi hafa fleiri fylgt í kjölfarið eða tekið upp víðar. Afgerandi aðgerðir þarf til að bregðast við loftslagsvánni og koma í veg fyrir hamfarahlýnun jarðar. Aukin meðvitund um skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum og metnaður til að gera enn betur er bæði mikilvægur og ánægjulegur og það er sannarlega horft til forystu Íslands á alþjóðavísu.

Mörgum hættir til að gleyma, eins og þessi umræða ber með sér, að við höfum ekki aðeins undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum heldur einnig um verndun líffræðilegs fjölbreytileika. Þessi verkefni eru nátengd og samofin. Líffræðilegur fjölbreytileiki er gjarnan notaður sem mælikvarði á heilsu vistkerfa, samsetningu og kvikt samspil tegunda innan vistheilda og hæfni þeirra til áframhaldandi þróunar og tilvistar. Það er mikilvægt að átta sig á að líffræðilegur fjölbreytileiki felst ekki einungis í fjölda tegunda heldur einnig fjölbreytileika innan tegunda, hæfni og möguleikum þeirra til að aðlagast nýjum aðstæðum og mynda nýjar tegundir. Sérstaða Íslands felst einmitt í því að eyjan er ung og einangruð eldfjallaeyja með fjölbreyttum og síbreytilegum búsvæðum sem tiltölulega fáar tegundir lífvera hafa numið, sem kemur fram í gríðarlegum fjölbreytileika og afbrigðamyndun innan tegunda og tegundamyndun á fátíðum hraða. Í þessum aðstæðum felst neisti að myndun nýrra tegunda og vistsamfélaga. Ísland er í raun Galapagoseyjar framtíðarinnar ef þessir þróunarfræðilegu ferlar fá að móta hana óáreittir og það er okkar hnattræna skylda að standa vörð um þá. Við erum hluti af tilverunni, af náttúrunni og hún á sinn eigin rétt til að þróast áfram á eiginn forsendum.

Við ráðherra og þingheim vil ég segja sérstaklega: Við verðum að tryggja að saman fari markvissar og árangursríkar aðgerðir í loftslagsmálum og verndun búsvæða, líffræðilegs fjölbreytileika og náttúruvernd.