152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

loftslagsmál.

[15:06]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og málshefjanda fyrir að taka þessi mál hér upp og ég vonast til þess að við höfum fleiri tækifæri til þess, og örugglega, til þess að ræða þessi mál bæði hér í þingsal og annars staðar vegna þess að það er mjög mikilvægt. Ég get auðvitað ekki leiðrétt allt það sem hér kom fram, en bara til að það sé alveg á hreinu, því að talað var um að hér væri ekkert gert til að reyna að sjá til þess að orkan færi til almennings í orkuskiptum, þá vil ég taka fram að eitt af því fyrsta sem ég gerði var að setja af stað raforkuöryggishóp til að fara nákvæmlega yfir það mál. Ef það þarf meira til en þann hóp eða einhverjar aðrar tillögur koma þar fram þá verður það framkvæmt.

Hér kom mjög margt fram og þó svo að segja mætti að hv. þingmenn hafi ekki allir verið sammála þá finnst mér samt sem áður vera ákveðinn tónn í þessu, sem er þessi: Allir hv. þingmenn eru sammála því að við ætlum að ná þessum markmiðum, við ætlum helst að gera betur, við viljum vera með þeim allra fremstu og það er svo sannarlega minn vilji. En við verðum að fara að komast á þann stað að ræða það hvernig við ætlum að gera það. Hvernig ætlum við að gera það? Ástæðan fyrir því, virðulegi forseti, að ég vakti athygli á ákveðnum staðreyndum í upphafi míns máls er sú að við verðum líka að ræða það hvernig við ætlum að komast á leiðarenda því að það sem mun standa upp úr er hvað við gerum en ekki hvað við segjum. Hv. þingmenn geta skammað mig fyrir það að líta á hlutina eins og þeir eru en ég ætla bara að gera það. Þýðir það að það skorti metnað? Nei, það vantar ekkert upp á metnaðinn, en ég sé hvernig staðan er. Ég veit hver verkefnin eru og það mun ekki standa á mér (Forseti hringir.) að ná eins góðum árangri og mögulegt er, en ég mun ekki gera neitt einn. (Forseti hringir.) Ég met það svo að hv. þingmenn hafi allir komið hér fram og sagt með mismunandi orðum að þeir séu tilbúnir í þetta verkefni.