152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[17:12]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Samkvæmt nýjustu tölum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna hafa 82,4 milljónir manna flúið heimili sín. Undir þá tölu falla um 20,7 milljónir sem hafa skilgreinda stöðu flóttamanna, auk 5,7 milljóna Palestínumanna sem búið hafa í flóttamannabúðum um áratugaskeið. Um 48 milljónir manna eru á flótta í eigin landi en stærsti hluti þeirra er að flýja stríð eða náttúruhamfarir. Við þetta bætast svo 4,1 milljón sem hafa skilgreinda stöðu hælisleitenda og 3,9 milljónir íbúa Venesúela sem hafa leitað til annarra landa Suður-Ameríku. Um 86% þessara einstaklinga eru enn í þróunarlöndum en einungis um 14% þeirra hafa flúið til hinna ríku ríkja. Um 73% eru í nágrannalöndum þess lands sem þau eru frá.

Það er einnig áhugavert að sjá að um 68% fólks á flótta eru frá fimm löndum: Sýrlandi, Venesúela, Afganistan, Suður-Súdan og Mjanmar. Þá er einnig áhugavert að þó svo að um 30% íbúa heims séu börn þá eru börn og ungmenni 42% þeirra sem eru á flótta. Að flýja heimaland sitt, hvort sem er vegna átaka, loftslagsbreytinga, ójöfnuðar, hatursglæpa eða af annarri ástæðu, er aldrei auðveld ákvörðun. Hér fyrir nokkrum dögum sagði ég í ræðustól frá lífi Söru, 18 ára stúlku sem flúði kynbundið ofbeldi og limlestingar í heimaríki sínu, en lenti í því að vera nauðgað á hverjum degi í heilt ár eftir að hafa verið sett í fangelsi að ástæðulausu í Líbíu.

Í dag langar mig að segja sögu 14 ára drengs sem heitir Omar. Omar, móðir hans Hysia, sem var 39 ára, og yngri bróðir hans, Mohamet, sem var níu ára, reyndu að komast yfir Miðjarðarhafið 31. desember sl. Þau lögðu af stað í litlum bát frá borginni Oran á strönd Alsírs ásamt 13 öðrum hælisleitendum. Í upphafi gekk ferðin vel en þegar nær dró strönd Spánar versnuðu veðurskilyrðin. Það kom mikil þoka og mjög dró úr skyggni. Allt í einu kom stór alda. Sennilega var stórt skip að sigla nálægt þeim. Bátnum þeirra hvolfdi um klukkan tvö að nóttu á nýársdag utan við strendur Andalúsíu. Allir sem voru um borð lentu í sjónum. Hysia reyndi allt til þess að bjarga börnum sínum tveimur. Hún náði taki á tómum bensínbrúsa og þau notuðu hann til að halda sér á floti. En það leið ekki á löngu þar til yngri sonurinn missti takið og Hysia synti á eftir honum. Omar hélt fast í bensínbrúsann og sá þau hverfa inn í þokuna. Næsta morgun var Omari bjargað um borð í flutningaskip sem átti leið hjá. Hann hafði þá haldið sér í bensínbrúsann í yfir sjö klukkustundir. Þegar Omar bjargaðist um borð í flutningaskipið var hann nær dauða en lífi, en þeim tókst að hlýja honum og gáfu honum svo að borða. Flutningaskipið kallaði upp gæsluskip frá Alsír og þeir tóku hann aftur til Oran. Omar bjargaðist en Hysia og yngri sonur hennar hurfu í hafið. Því miður er saga Omars, Hysiu og Mohamets ekkert einsdæmi. Hundruð hælisleitenda látast á hverju ári í Miðjarðarhafinu.

Aðeins lítið brot af því fólki sem er á flótta kemur hingað á hjara veraldar og sækir um hæli. Það er í raun viss hetjudáð að leita alla leið norður að heimskautsbaug að betra lífi, en í huga þessa fólks er Ísland land jöfnuðar, mannúðar og tækifæra; land þar sem þau geta búið fjölskyldu sinni trygga framtíð og aftur orðið þegnar í þjóðfélaginu. En sannleikurinn er sá að það er til háborinnar skammar hvernig við Íslendingar tökum á móti og styðjum við hælisleitendur. Þrátt fyrir endalausa manneklu í mörgum stéttum tröðkum við á mannréttindum hælisleitenda og spörkum þeim úr landi, einungis vegna þess að þeir voru fæddir í vanþróaðra landi en okkur finnst að fólk sem kemur hingað megi vera frá.

Andstæðingar þess að taka mannúðlega á móti hælisleitendum blása ávallt upp að ef við tökum vel á móti fólki, eða eins og ég vil kalla það, á mannsæmandi hátt, muni koma hingað holskefla hælisleitenda. Sannleikurinn er sá að þegar samningurinn um EES var gerður þá voru svipaðar ástæður gefnar til þess að vara við öllum þeim skelfilegu útlendingum sem gætu komið til landsins frá Suður- og Austur-Evrópu. Sú holskefla varð alls ekki eins stór og þessir aðilar vöruðu við og ekki er hægt að segja annað en að sá hópur sem kom frá Suður- og Austur-Evrópu hingað til lands hafi svo sannarlega bætt og kryddað þjóðfélag okkar á góðan hátt, rétt eins og þeir fáu hælisleitendur og flóttamenn sem hafa fengið leyfi til að setjast hér að.

Ein af ástæðunum fyrir því að ég ákvað að skipta um starfsvettvang og láta í mér heyra á hinu pólitíska sviði er sú ómannúðlega og hreint og beint ólöglega meðhöndlun sem við höfum veitt hælisleitendum hér á landi. Komið er fram við þá á svo skelfilegan máta að við sem finnum til mannúðar fáum sting í hjartað í hvert skipti sem um það er fjallað. Mannréttindi eru að engu höfð og stjórnvöld veigra sér ekki við að henda fólki út á gaddinn án alls rökstuðnings. Allar ástæður eru notaðar til að koma á ómannúðlegar hátt fram við þetta fólk. Já, þetta er fólk eins og við sem hér sitjum og ég er sannfærður um að enginn hér myndi sætta sig við jafn ómannúðlega framkomu og þetta fólk hefur þurft að upplifa af hendi stjórnvalda hér á landi. Í þessum hópi eru fjölmargir einstaklingar úr viðkvæmum jaðarhópum, einstaklingar sem hafa þurft að líða ofbeldi, hvort sem það er vegna kyns síns, kynferðis eða kyntjáningar, jaðarsettir hópar sem hafa flúið heimaland sitt til fyrirheitna landsins Íslands þar sem réttindi hinsegin og kynsegin fólks eru í hávegum höfð. En þau réttindi virðast ekki hafa náð inn fyrir veggi Útlendingastofnunar sem dregur þau öll í efa og beitir sömu valdníðslu og þetta fólk flúði í heimalandi sínu. Í hópi hælisleitenda hér á landi eru líka yfir 200 börn sem ég vakti athygli Alþingis á fyrir hátíðarnar, börn sem eiga það öll sameiginlegt að hafa sótt um vernd á Íslandi. Mörg þeirra eru á bilinu núll til tveggja ára og sum hver eru með ófædd systkini. Mörg þessara barna eru ein á ferð og í stað þess að taka þeim opnum örmum leitum við að fyrsta tækifæri til að koma þeim úr landi.

Virðulegi forseti. Hvers konar þjóðfélag er það sem sendir fólk út á gaddinn, treður á sjálfsögðum réttindum fólks, einungis vegna þess hvar það fæddist, og tekur síðan ekki við börnum í neyð? Það er a.m.k. ekki þjóðfélag sem ég vil sjá hér á Íslandi og mun ég því gera allt sem í mínu valdi stendur til að stöðva þann rasisma og það mannhatur sem felst í þeim frumvörpum sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur lagt fram í samráðsgátt um málefni útlendinga.