152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[18:10]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mig grunaði að við gætum verið sammála um þetta þó að mögulega greini okkur á um aðferðina, leiðina að því. Langbesta leiðin til að auka hraðann í meðferð umsókna, sérstaklega hér á landi þar sem stór hluti umsækjenda fær synjun um efnismeðferð, sem sagt umsóknum þeirra er vísað frá — þetta er fólk sem við vitum að er flóttamenn, það er búið að afgreiða umsóknir þess. Við þurfum ekki einu sinni að gera það. Við gætum einfaldlega tekið málið til efnismeðferðar og byggt á útlendingalögum. Það er meira að segja ákvæði í útlendingalögum sem segir að ef annað ríki hefur viðurkennt stöðu viðkomandi sem flóttamanns eigum við að viðurkenna það líka. Því ákvæði hefur ekki verið beitt. Við gætum þess vegna tekið þessar umsóknir til efnismeðferðar og rétt fólki dvalarleyfisskírteinið. Þetta gæti tekið tíu mínútur. Ég styð það heils hugar að stytta málsmeðferðartímann umtalsvert í þessum málum með því að hleypa fólki út í samfélagið í stað þess að eyða mánuðum í að trámatísera það og reyna síðan eftir fremsta megni að koma því úr landi.

Frumvarpið sem við ræðum í dag snýst fyrst og fremst um þjónustu við fólk sem er búið að fá stöðu flóttamanns. Ég tók eftir því að hv. þingmanni varð tíðrætt um hvað þessi þjónusta kostar og hann virðist hafa áhyggjur af því að þetta verði til þess að laða að fleiri umsækjendur. Ég velti því reyndar oft fyrir mér, þessu með að það eigi ekki að vera að laða fólk hingað til lands. Í annarri umræðu erum við alltaf að reyna að gera landið okkar gott þannig að fólk vilji koma og búa hér. Það er því svolítið leiðinleg umræða að við viljum hafa aðstæður svo slæmar að fólk vilji ekki koma hingað.

Mig langar að minna þingmanninn á að fólk er ekki byrði á samfélögum, samfélög eru fólk. Stærra samfélag er sterkara samfélag. Ég vil svo bara nefna að ég er ekki viss um að þjónusta á borð við bætta íslenskukennslu sé endilega eitthvað sem muni í auknum mæli draga fólk hingað til lands.