152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[18:31]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að fagna þessu máli. Þetta er nokkuð sem kallað hefur verið eftir í langan tíma og hefur verið unnið að ansi lengi og ég ætla bara að fá að segja: Þótt fyrr hefði verið.

Hér er verið að samræma þá þjónustu og þann stuðning sem fólk fær óháð því hvort það kemur hingað til lands upp á eigin spýtur eða vegna boðs af hálfu stjórnvalda í gegnum fjölskyldusameiningu. Það eru þó nokkur atriði sem mig langar að tæpa örstutt á í tengslum við þetta frumvarp. Það er í fyrsta lagi atriði sem kemur fram í mörgum þeirra umsagna sem hafa borist um málið við fyrri umfjöllun, þörfin á því að stjórnvöld móti sér heildstæða stefnu, heildstæða stefnu um móttöku flóttafólks til lengri tíma. Þar vil ég taka undir orð hv. þm. Bergþórs Ólasonar sem nefndi áðan að þetta frumvarp sýndi enga heildarmynd. Ég ætla að taka undir það. Þetta er mjög mikilvægur þáttur, mikilvægt brot, en sýnir okkur ekki framtíðarsýnina og heildarmyndina í móttöku flóttafólks.

Það þarf að móta heildstæða stefnu og heildstætt kerfi sem er mun víðtækara, mun heildrænna, þar sem allir þættir samfélagsins koma til skoðunar, heildrænna móttökukerfi. Þar ætla ég að taka undir með fleiri þingmönnum sem tekið hafa til máls um þetta mál varðandi það að við getum lært af reynslu Norðurlandanna í þeim efnum. Ég er ekki sammála hv. þm. Birgi Þórarinssyni sem nefndi það ítrekað áðan að við værum með bestu þjónustuna í Evrópu og besta kerfið og þess vegna kæmi fólk hingað. Það er ýmislegt ágætt hér en það er líka mjög margt sem við eigum eftir ólært. Það er mjög margt sem má bæta og margt sem Norðurlöndin og önnur ríki í Evrópu gera mun betur en við. Það er ekki síst varðandi aðlögun flóttafólks. Ég myndi vilja sjá stefnu ríkisstjórnarinnar um gagnkvæma aðlögun flóttafólks og annarra innflytjenda hér á landi til lengri tíma.

Ég leyfi mér að efast um að þær tölur, sem Útlendingastofnun hefur kannski fleygt fram í ákveðnum hálfkæringi á fundum, séu endilega byggðar á einhverjum raunveruleika eða rannsóknum. Það er ekkert sem bendir til þess að fjöldi fólks á faraldsfæti um heiminn fari minnkandi á næstu misserum, þvert á móti. Þó að við séum kannski ekki með góð tæki til að reikna út einhvern fjölda, hvorki Útlendingastofnun né aðrir, þá bendir flest til þess að þessi hópur muni fara stækkandi vegna loftslagsbreytinga, vegna ýmiss óróa í hinum og þessum samfélögum og vegna breyttra samfélagshátta, vegna ýmissar tækniþróunar og annarra þátta. Þess vegna er svo mikilvægt að við hættum að hugsa þetta þannig að við getum bara lokað öllum dyrum og gluggum og þá verði þetta allt í lagi og tökum þessum raunveruleika eins og hann er og tökumst á við hann. Það þarf að gera með heildrænni stefnu til langs tíma um gagnkvæma aðlögun alls samfélagsins, innflytjenda og annarra.

Til að þetta sé hægt þarf líka, og á það er bent í umsögnum við málið á fyrri stigum, að stórauka gögn og rannsóknir um aðlögun innflytjenda, ekki síst flóttafólks, um bæði persónulega aðlögun þess, aðgengi að vinnumarkaði og annað. Sáralítið er til af gögnum og rannsóknum í þá veru, en það eru upplýsingar sem við þurfum til að geta hannað kerfið almennilega og þróað til lengri tíma.

Það er rauður þráður í gegnum flestar athugasemdir sem berast að það þarf að bæta túlkun og aðgengi að íslenskukennslu. Það er öllum í hag. Það er eitthvað sem við ættum ekki að þurfa að deila um. Meira að segja Miðflokkurinn er sammála því að íslenskukennsla sé sannarlega mikilvæg.

Til viðbótar þarf að tryggja þjálfun fagfólks í öllum stéttum samfélagsins. Það er mjög gott að þarna sé kominn miðpunktur sem aðstoðar aðrar stofnanir og aðra hluta samfélagsins við ýmiss konar menningarlegar áskoranir og annað. En það þarf líka að fara í átak í þjálfun og kennslu á öllum sviðum samfélagsins, í heilbrigðisgeiranum, í lögreglu og annars staðar, í menningarnæmi, því sem er kallað millimenningarlegar leiðir og hagnýtar leiðir í starfi með fólki með fjölbreyttan bakgrunn, af fjölbreyttum uppruna. Það er ekki áskorun sem mun minnka á næstu árum.

Annað sem ég vil hvetja velferðarnefnd til að skoða vel varðandi við vinnuna í þessu frumvarpi eru ábendingar sem borist hafa um meðferð persónuupplýsinga. Það er mjög mikilvægt að fólk gefi raunverulega upplýst samþykki fyrir vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga sem geta verið nauðsynlegar til að laga þjónustu og aðstoð að þörfum einstaklinga. Þar kemur túlkun og annað inn í myndina líka og þar getur jafnvel þurft menningarlega túlkun. Það skiptir gríðarlega miklu máli að fólk átti sig á því hvar upplýsingar um það eru geymdar og hvernig farið er með þær.

Svo er annað sem hringdi ákveðnum viðvörunarbjöllum við lestur frumvarpsins, þ.e. að ég fæ ekki betur séð en að ætlunin sé sú að Fjölmenningarsetur sjái um, eins og það er orðað í frumvarpinu, að para saman einstaklinga og sveitarfélög. Ef ég skil það rétt, og ég bið hæstv. ráðherra að leiðrétta mig ef svo er ekki, þá hefur umsækjandi, sem er í rauninni kannski ekki lengur umsækjandi, umsækjandi um þjónustuna, ekki neitt um það að segja hvaða sveitarfélag það er sem mun veita þjónustuna. Ég tel mig skilja ástæðuna að baki þessu fyrirkomulagi. Hún er væntanlega sú að það eru fá sveitarfélög sem búið er að gera samninga við og kannski ekki hægt að verða við óskum allra. Ég vil hins vegar hvetja velferðarnefnd og hæstv. ráðherra til þess að finna leið til að skapa meiri virðingu fyrir einstaklingunum, virðingu fyrir óskum og vilja fólks í þessari vinnu þannig að það hafi eitthvert val eða einhverja aðkomu að þeirri þjónustu sem því er síðan boðin og þá kannski ekki síst varðandi staðsetningu.

Þetta snýst líka um það, sem hljómar alltaf kjánalega þegar maður segir það, að flóttafólk er bara fólk eins og við. Þó að það sé gegnumgangandi að oft er ætlast til þess að flóttafólk eigi kannski bara að vera fegið að vera á lífi og ekkert að vera að gera of miklar kröfur, þá vitum við það öll að fæst viljum við bara lifa af, við viljum gjarnan lifa. Því fylgir að velja sér starf, velja sér vettvang, velja sér framtíð og að geta stýrt framtíð sinni og haft áhrif á hana. Hvað þetta varðar, og annað í þessu frumvarpi svo sem, ætla ég bara að taka undir góð orð sem komu fram í umsögn Rauða krossins um þetta mál á fyrri stigum: Heilsa og vellíðan flóttafólks eru almannahagsmunir, ekki einkahagsmunir þess.