152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[18:43]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ef ég skildi athugasemdina rétt þá snýr hún að þessari pörum, eins og hv. þingmaður nefndi. Ég held að ásetningurinn að baki frumvarpinu sé allur góður. Það er mín tilfinning við lesturinn. Það er hins vegar náttúrlega þannig að við getum ekki fundið út hvað hentar fólki eða aðstæðum þess án aðkomu þess sjálfs. Það er kannski það sem er oft vanmetið, kannski ekki síst í tilviki fólks sem er af einhverjum ástæðum í viðkvæmri stöðu. Við sjáum þetta ekki bara í málefnum flóttafólks, við sjáum þetta líka í málefnum fatlaðs fólks, í málefnum barna, í málefnum aldraðra og annars og í rauninni í öllum málaflokkum þar sem viljinn til að hjálpa fer yfir strikið og fer kannski að stjórna meira en þörf er á. En ég held að ásetningurinn sé góður.

Nú er ég hætt að vinna með skjólstæðingum í þessum málum af því að ég er komin í aðra vinnu, en það vakti mig til umhugsunar að nýlega var ég að aðstoða mann sem fékk vernd hér á landi. Þá var þetta nýja kerfi farið í gang í tilraunastarfsemi og þessi maður vildi bara fá að fara og leigja sér íbúð og fara að vinna, hann var svo sem búinn að bíða eftir því í ansi langan tíma. En ég fékk svolítið á tilfinninguna að það gæti orðið þannig að fólk yrði þvingað inn í eitthvert aðstoðarkerfi sem það þarf ekki á að halda. Það er eitthvað sem þarf kannski að hafa í huga líka. Viðvörunarbjöllurnar sem hringja þarna snúast um aðkomu fólksins sjálfs, að við förum ekki fram úr okkur við það að aðstoða fólk án aðkomu þess, án þess að það segi sjálft til um hvaða aðstoð það þarf og hvað ekki.