152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[18:48]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum aftur fyrir andsvarið og áhugavert samtal. Það sem stuðar kannski við þetta frumvarp og þá nálgun sem þarna kemur fram er að þetta virðist svolítið vera allt eða ekkert. Það er kannski það sem væri hægt að gera einhverjar breytingar á eða að aðlaga þetta betur að raunveruleikanum. Sannarlega er margt flóttafólk að koma úr skelfilegum aðstæðum og það þarf tíma til að lenda. Það kemur oft beint úr skelfilegum aðstæðum og það þarf hreinlega tíma til að ná áttum. Það er hins vegar ekkert alltaf tilfellið. Stundum hefur fólk verið á flótta í lengri tíma. Það hefur dvalið í öðru ríki um einhvern tíma og það er kannski, ef svo má orða það, lent og vantar framtíðarsýn í líf sitt. Þá er eitthvert tímabundið verkefni einhvers staðar þar sem fólk ætlar ekkert endilega að verja ævinni, kannski ekki það sem það þarf á að halda. En það þýðir þó ekki endilega að fólk þurfi ekki einhvern stuðning. Það er sannarlega fullt af stuðningi sem ætla má að allir þurfi á að halda, eins og íslenskukennsla. Það er miður fyrir bæði umsækjendur og fyrir okkur sem samfélag ef ekki er hægt að veita þá þjónustu einfaldlega vegna þess að viðkomandi vill kannski ekki aðra hluta hennar. Ég hvet því velferðarnefnd og hæstv. ráðherra til að skoða vandlega möguleikana á því að gera þetta kerfi sveigjanlegra þannig að fólk geti verið virkari þátttakendur í útfærslu þjónustunnar, ekki bara heildarpakkans heldur líka í rauninni hvað hentar úr honum og hvað ekki, og að það sé tekið inn í myndina að sumt af þessu fólki þarf kannski ekki alla þessa þjónustu þó að það þurfi hluta hennar.