152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[18:52]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Þetta var raunar eitthvað sem ég nefndi í andsvari við ræðu annars þingmanns hér áðan og tilheyrir sannarlega umræðu um heimild fólks til að koma og dvelja á Íslandi en kannski ekki efni þess frumvarps sem við ræðum hér. Ég nefni þetta í samhengi við þann raunveruleika, sem við búum sannarlega við á Íslandi, sem er sá að stór hluti fólks sem leitar hingað að vernd hefur þegar fengið „vernd“ — það er kannski meira á blaði en í reynd — í öðrum Evrópuríkjum og fyrst og fremst, ef ekki eingöngu, á Grikklandi og í Ungverjalandi en í einstökum tilvikum á Ítalíu. Ég nefni þetta í tengslum við það vegna þess að þar er ég sammála mati Útlendingastofnunar og margra annarra, mál sem taka langan tíma.

Við erum með reglu í lögum sem segir að ef mál hefur tekið 12 mánuði eða lengur skuli taka málið til efnismeðferðar. Svo vill til að þessi mál taka svo langan tíma að langflest þeirra enda þannig. Það er af mörgum ástæðum. Það hefur fyrst og fremst verið vegna þess að kærunefnd útlendingamála hefur fellt þessi mál úr gildi, hefur sent þau aftur til Útlendingastofnunar. Þau fara annan hring, aftur í gegnum Útlendingastofnun og til kærunefndarinnar, fara fram og til baka, og svo á að drífa fólk úr landi á einhverjum fimm dögum. Það tekst ekki vegna þess að sem betur fer eru ekki til heimildir til að þvinga fólk í líkamsrannsókn til að koma því í flug. Þess vegna nefndi ég þetta. Það var alls ekki ætlun mín að leggja til að fólk fengi enga þjónustu að þessu loknu.

Af reynslu minni að dæma ætla ég hins vegar að vera ósammála hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni, sem nefndi hér áðan að allt þetta fólk væri ekki bara komið hingað til að vinna. Ég held að þetta fólk sé meira og minna allt komið hingað til að vinna, (Forseti hringir.) ég held að svo sé. Það er það sem ég á við þegar ég segi að fólk eigi að geta byrjað að byggja upp líf sitt (Forseti hringir.) í stað þess að þurfa að vera í slæmri þjónustu, búa upp við flugvöll og fá 8.000 kr. á viku í vasapeninga; stara á hvíta veggi í heilt ár (Forseti hringir.) í stað þess einfaldlega að sleppa því og bjóða því að byrja að byggja líf sitt upp hér á landi. Það er það sem ég átti við.

(Forseti (DME): Til upprifjunar minnir forseti á að ræðutími í andsvörum er tvær mínútur, ekki tvær og hálf mínúta.)