152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[18:57]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir samtalið. Ég er á þeirri skoðun — og byggi hana m.a. á reynslu okkar af öðrum opnunum sem við höfum ráðist í á landamærum okkar, m.a. með inngöngu í Evrópska efnahagssvæðið — að ef við höldum rétt á spöðunum, ef við tryggjum að hér sé opið og móttækilegt samfélag og að þessi gagnkvæma aðlögun sé tryggð, hef ég engar áhyggjur af þeim fjölda sem kemur hingað. Áskorunin sem felst í fjöldanum felst ekki í fjöldanum, hún felst í samsetningunni á fjöldanum. Eins og ég hef nefnt ítrekað: Fólk er ekki byrði á samfélögum. Samfélög eru fólk. Með stækkun samfélagsins held ég að við yrðum bara öflugri. Ég held að áskoranirnar lúti að öðrum hlutum. Þar eru verkefnin önnur.

Ég nefni oft að gamni í þessari umræðu þá staðreynd að eins og staðan er í dag eru það 500 milljónir einstaklinga sem geta flutt til Íslands, þurfa ekki að sækja um eitt eða neitt, mæta bara niður í Þjóðskrá, skrá sig þar, þurfa ekki einu sinni að gera það fyrstu þrjá mánuðina og geta byrjað að vinna, fundið sér vinnu og byrjað að lifa lífinu án þess að spyrja kóng eða prest. Og það eru verulega takmarkaðar heimildir til þess að færa þetta fólk úr landi. Í mörgum ríkjum, þar sem fólk hefur ferðafrelsi til Íslands, svo sem eins og í Grikklandi, er gríðarlegt atvinnuleysi; það er talað um 40% atvinnuleysi hjá ungu fólki í Grikklandi. Mig langar þá að spyrja á móti, kannski meira teoretískt út í kosmósið: Fyrst allt þetta fólk má koma hingað og það er svo frábært að búa á Íslandi, hvar eru þá Grikkirnir?